Svarar veitingamönnum fullum hálsi

Jóhann Karl Þórisson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Jóhann Karl Þórisson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir mikilvægt að fólk leyfi peningum ekki að lita skoðun sína á því hvort stytta eigi opnunartíma skemmti- og veitingastaða eftir að kórónuveirufaraldrinum líkur og þannig stýra umræðunni.

Inntur viðbragða við svari Kormáks Geirharðssonar, annars eigenda Ölstofu Kormáks og Skjaldar, svarar Jóhann Karl veitingamönnum fullum hálsi og segir að meta þurfi áhrif opnunartímans á meira en innkomu veitingahúsaeigenda, meðal annars hvað varði afleiðingar af líkamsárásum og nauðgunum. Þá bendir hann á þá staðreynd að í dag séu veitinga- og skemmtistaðir fleiri og dreifðari en þeir voru.

„Væntanlega eru veitingamenn að hugsa um aurinn“

„Mér sýnist hann vera að gefa sér það að við viljum fara aftur til þess tíma þegar allir staðirnir lokuðu klukkan þrjú og allir komu út á sama tíma. Þá voru að vísu flestir staðir vestan Lækjargötu og nokkrir stórir staðir eins og Borgin, Nasa, Óðal og Gaukurinn sem tóku hundruð manna. Í dag eru staðir dreifðir frá Ingólfstorgi upp á Frakkastíg,“ segir Jóhann um svör Kormáks. 

„Væntanlega eru veitingamenn að hugsa um aurinn en ekki afleiðingar skemmtanahalds sem við í lögreglunni erum að fást við, það er alvarlegar líkamsárásir sem setja mark sitt á einstaklinga um aldur og ævi, svo ekki sé talað um nauðganir. Hver nauðgun hefur í för með sér hörmulegar afleiðingar svo ekki sé meira sagt. Að mínu viti þá er það meira virði að koma í veg fyrir að nauðgun eigi sér stað heldur en krónur í kassa veitingamanna.“

Ásýnd og orðspor Reykjavíkurborgar í húfi

Að sögn Jóhanns eru hagsmunaaðilar sem koma að málinu fleiri en bara lögreglan og þeir sem standa í veitingarekstri.

„Það eru þeir sem eru að skemmta sér í miðborginni, íbúar miðborgarinnar, Stígamót sem taka við andlegum afleiðingum kynferðisbrota, slysadeildin sem tekur við fórnalömbum slagsmála og kynferðisbrota.“

Þá nefnir hann einnig ferðamenn og upplifun þeirra af Reykjavíkurborg sem áfangastað.

„Síðast en ekki síst eru það blessaðir ferðamennirnir sem vakna eldsnemma á morgnana til að fara í skoðunarferðir og þurfa að horfa upp á ungmenni, sem eru mörg hver á þvælingi um miðborgina, í annarlegu ástandi, eftir margra klukkutíma skemmtanalíf.“

„Þetta er spurning um útfærslu“

„Í dag eru veitingahús með leyfi eftir flokkum þá má skoða hvort staðir í flokki tvö séu opnir skemur en staðir í flokki þrjú en það eru staðir með háværri músík, hljómsveitum og þess háttar, sem eru meiri svona skemmtistaðir. Þetta er spurning um útfærslu,“ segir Jóhann.

„Við höfum ekki sett niður neinn sérstakan tíma en hvetjum til umræðu sem mun leiða okkur að niðurstöðu um styttri opnunartíma. Við höfum fengið gögn frá höfuðborgum annarra Norðurlanda til samanburðar þannig að við skulum endilega halda þessari umræðu áfram. Lögreglan er tilbúin í samtalið.“ 

Heit umræða

Afgreiðslutími veitinga- og skemmtistaða í miðbænum hefur verið mikið til umræðu undanfarna daga. Í kórónuveirufaraldrinum var stöðunum gert að loka fyrr en ella en nú þegar faraldurinn er í rénun velta menn því fyrir sér hvort lengja eigi afgreiðslutímann aftur.

Jóhann Karl opnaði fyrst á umræðuna í viðtali við mbl.is á dögunum. Hann vill ekki fara aftur í sama horf og fyrir faraldurinn enda bendi tölfræðiupplýsingar frá lögreglunni til þess að gríðarleg fækkun hafi orðið á afbrotum í miðbænum eftir að afgreiðslutími veitinga- og skemmtistaða var styttur.

„Tölurfræðigögnin hrópa á það að umræðan sé tekin, hvort sem um er að ræða tilefnislausar alvarlegar líkamsárásir eða kynferðisbrot og nauðganir. Líkurnar á alvarlegum brotum aukast eftir því sem á líður á nóttina. Það sést glöggt í tölunum,“ segir Jóhann.

Í kjölfarið lét Kormákur Geirharðsson skoðun sína á málinu í ljós í viðtali við mbl.is en að hans mati er styttri afgreiðslutími engin lausn og raunar „algjör heimska,“ að eigin sögn. 

mbl.is