Hvenær erum við Íslendingar?

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á Austurvelli í dag.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á Austurvelli í dag. mbl.is/Jón Helgi

Kannski gerði heimsfaraldur kórónuveirunnar Íslendinga að meiri þjóð en þeir hafa lengi verið. „Fólk sem allt í einu varð einangrað frá umheiminum fann nú áþreifanlega fyrir því að allt sem hver og einn gerði skipti okkur öll máli. Allt í einu vorum við – sem búum í þessu samfélagi – tengd áþreifanlegum böndum í einum vefnaði, ofin saman í samfélaginu okkar,“ sagði Katrín Jakobsdóttir í ræðu sinni á hátíðarathöfn á Austurvelli í tilefni þjóðhátíðardagsins. 

Katrín sagði að á þjóðhátíðardeginum væri ráðrúm og tilefni til að hugsa um Ísland, okkur sjálf og hvað það merkti að vera þjóð. 

„Hvenær skiptir það mann máli að vera einhverrar þjóðar? Erum við ekki líka Reykvíkingar, Vestfirðingar, Mýrdælingar? KR-ingar, Þórsarar, Skagamenn? Karlar, konur, kynsegin? Þingmenn, verkafólk, kennarar, hjúkrunarfræðingar? Hvenær erum við Íslendingar?“ spurði Katrín. 

Katrín sagði í ræðu sinni að stundum kynni það að vera freistandi að dvelja í eigin tilveru og leggja eingöngu mat á heiminn út frá eigin forsendum. 

Hanna María leikkonan er fjallkonan í ár.
Hanna María leikkonan er fjallkonan í ár. mbl.is/Jón Helgi

„En þegar á reynir – þegar eitthvað kemur upp á – þá viljum við finna að við búum í samfélagi þar sem við stöndum saman. Þannig samfélag viljum við. Þannig þjóð erum við; sjálfstæð þjóð sem stendur saman og vinnur með öðrum í samfélagi þjóðanna að skýrum markmiðum um lýðræði, mannréttindi, jafnrétti, velmegun og umhverfisvernd,“ sagði Katrín. 

Hún sagði síðustu fimmtán mánuði hafa verið erfiða en jafnframt lærdómsríka. Fram undan væru ekki síður krefjandi tímar. 

„Tímar sem krefjast þess að við svörum skýrt spurningunum um hvernig samfélag við viljum móta í framtíðinni og hvað við viljum gera til að svo megi verða. Hvers konar Ísland viljum við byggja upp að loknum faraldri? Land þar sem tekið er tillit til annarra. Land þar sem fólk getur breytt draumi í veruleika og skapað sér tækifæri. Land þar sem fólk getur leitað hamingjunnar,“ sagði Katrín. 

Tími viðspyrnu fram undan 

„Nú er fram undan tími viðspyrnu þar sem við munum takast á við stórar áskoranir og byggja upp Ísland. Við þurfum að halda áfram að takast á við loftslagsvána, rétt eins og við tókumst á við faraldurinn; saman, á grundvelli rannsókna og gagna og með sem bestum upplýsingum til allra þannig að við getum lagt okkar af mörkum til að ná árangri í þeirri baráttu. Íslenskt atvinnulíf sýndi frumkvæði og hugvit í faraldrinum og þarf að beita sér með sama hætti fyrir grænum lausnum sem hjálpa okkur í stærsta verkefninu; að skila jörðinni heilli til komandi kynslóða,“ sagði Katrín. 

Ráðherrarnir Sigurður Ingi Jóhannesson, Bjarni Benediktsson og Svandís Svavarsdóttir á …
Ráðherrarnir Sigurður Ingi Jóhannesson, Bjarni Benediktsson og Svandís Svavarsdóttir á Austurvelli í dag. mbl.is/Jón Helgi

Katrín sagði umræðu stjórnmálanna sjaldnast snúast um hinar stóru framtíðaráskoranir. Glíman við þær myndi aftur á móti ákveða velsæld þeirra sem búa hér til framtíðar. 

Allir hluti af sömu heild þótt ólíkir séu 

Þá sagði Katrín að Ísland væri eins og heimsþorp á nyrsta hjara: 

„Það einkennir oft eyjaskeggja að þeim finnst þeir vera nafli alheimsins. Kannski vegna þess að við erum umkringd sjó og berum okkur sjálfkrafa saman við önnur lönd handan við hafið. Og reyndar, ef vel er að gáð, er svo margt sem hefur gerst í veraldarsögunni sem hefur líka gerst á Íslandi – þó aðeins smærra sé í sniðum. Ísland er eins og heimsþorp á nyrsta hjara, um land allt má finna fólk frá öllum heimshornum sem hefur komið og ílengst á Íslandi. Sem vinnur ótrúlegustu störf og sinnir fjölbreyttum samfélagsskyldum. Það fléttar sína þræði saman við innlendan vefnað þannig að úr verður enn fegurri mynd. Og vefnaður með margs konar þræði og ólík mynstur verður slitsterkari en sá sem er einsleitur og fábreyttur.“

mbl.is/Jón Helgi

 

Að lokum sagði Katrín að þjóðhátíðardagurinn minnti okkur á að við stæðum á herðum þeirra kynslóða sem á undan fóru og höfðu trú á íslensku samfélagi: 

„Við sem nú berum hinn íslenska fána þurfum að vera sívakandi við að leggja okkar af mörkum til að greiða götuna áfram til betra samfélags á Íslandi. Það eru okkar sameiginlega risavaxna verkefni. Því þótt við séum ólík, eigum ólíkar sögur og aðstæður þá erum við hluti af sömu heild, hluti af íslenskri þjóðarsögu, hluti af hinum íslenska samfélagsvefnaði. Á okkur hvílir skylda gagnvart þeim sem á undan gengu og gagnvart þeim sem á eftir okkur munu koma og undir þeirri skyldu og ábyrgð viljum við standa, hvert og eitt og saman sem þjóð. Þannig mun okkur áfram farnast vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert