Dúx Verzlunarskólans með 9,8 í meðaleinkunn

Elísa Sverrisdóttir er dúx Verzlunarskólans með meðaleinkunnina 9,8.
Elísa Sverrisdóttir er dúx Verzlunarskólans með meðaleinkunnina 9,8. Ljósmynd/Arnaldur Halldórsson

Elísa Sverrisdóttir útskrifaðist úr Verzlunarskóla Íslands 29. maí með meðaleinkunnina 9,8 og var þar með dúx skólans að þessu sinni. Elísa er stúdent af náttúrufræðibraut og segir skipulag, aga og áhuga vera lykilinn að góðum námsárangri.

Spurð hvort hún hafi alltaf haft það að markmiði að dúxa svarar Elísa neitandi. Eft­ir velgengni á fyrsta ári hafi hún þó ákveðið að setja markið hátt. 

„Ég var ekkert mikið að pæla í þessu á fyrsta ári en svo var ég efst eftir fyrsta árið og þá var ég komin með það markmið að dúxa næstu tvö árin og það hafðist,“ seg­ir Elísa í sam­tali við mbl.is.

Bæði vann og æfði meðfram náminu

Margur mundi halda að til þess að verða dúx þurfi maður að sitja og læra öllum stundum eftir skóla. Ekki að sögn Elísu, sem bæði þjálfaði og æfði frjálsar íþróttir með íþróttafélaginu Fjölni, sex sinnum í viku meðfram náminu. Hún segir skipulag skipta miklu máli ef maður ætlar að ná góðum árangri í námi.

„Ég skipulagði mig mjög vel og vann alveg fram í tímann ef ég vissi að það yrði mikið að gera. Ég hef alveg mikið að gera á virkum dögum þannig að ég nýtti helgarnar bara vel.“

Hversu lengi lærðirðu á dag?

„Kannski í svona tvo tíma á dag á virkum dögum en svo tók ég alveg vel á því um helgar.“

Elísa segir það skipta máli að hafa áhuga á því sem maður er að læra. Það hafi að hennar eigin sögn fleytt henni langt að ákveða það ekki fyrir fram að eitthvað væri leiðinlegt. Sjálfri fannst henni öll fög skemmtileg nema eitt.

„Mér fannst mjög gaman í efnafræði og stærðfræði en svo get ég ekki sagt að mér hafi fundist eitthvert eitt fag hafa verið leiðinlegast. Kannski að vélritun hafi verið síst en maður þurfti nú að taka hana.“

Hvernig gekk að sinna félagslífinu?

„Það var náttúrulega mjög erfitt en ég var ekki mikið í nefndum í skólanum. Ég komst inn í eina þarna núna í vor en út af Covid var ekki hægt að gera mikið. Það er kannski ekki alveg hægt að komast inn í einhverjar nefndir þegar maður hefur svona mikið að gera en ég mætti á böll og svona.“

Fjarnámið tók á

Samkomutakmarkanir vegna kórónuveirufaraldursins höfðu mikil áhrif á skólahald um land allt en kennsla síðasta skólaárs fór að mestu leyti fram yfir netið. Elísa segir það krefjast mikils aga að vera í fjarnámi og að það hafi tekið á að þurfa að þurfa sækja tíma heima. Hún reyndi þó að halda dampi.

„Mér fannst alveg erfitt að vera heima í fjarnáminu en maður þarf einmitt bara að halda sér við efnið og passa að verða ekki eftir á. Það gat alveg verið erfitt þegar enginn sat yfir manni og spurði mann hvort maður væri búinn með þetta. Mér gekk bara vel og ég þurfti bara að skipuleggja mig vel og passa að vera vel vakandi í tímum.“

Elísa Sverrisdóttir dúx (til hægri) ásamt Kolbrúnu Söru Haraldsdóttur semidúx.
Elísa Sverrisdóttir dúx (til hægri) ásamt Kolbrúnu Söru Haraldsdóttur semidúx. Ljósmynd/Þorgeir Níelsson

Allir möguleikar opnir

Fyrir námsárangurinn hlaut Elísa bókagjafir og námsstyrk upp á 500.000 krónur. Hún ætlar þó að eigin sögn að hvíla bækurnar í bili og hyggst ekki fara í háskólanám strax að loknu sumri.

„Ég ætla bara að vinna í haust og næsta vor. Ég er að reyna að fá vinnu í grunnskóla sem stuðningsfulltrúi en stefni svo á háskólanám haustið 2022,“ segir hún.

Spurð hvað hana langi að læra í háskólanum segist Elísa ekki vera búin að ákveða það. Eitt er þó víst miðað við námsárangurinn og það er að henni standa allir möguleikar opnir.

„Ég er bara alls ekki búin að ákveða það. Ég er eiginlega bara með allt opið og ætla ekki að festa mig við eitthvað eitt núna. Ég er svona að skoða náttúruvísinda- og heilbrigðisgeirann. Ég ætla alla vega að byrja í námi hérna heima og stefni á að fara í HÍ en fer svo örugglega í framhaldsnám í útlöndum.“

Til að fagna áfanganum hélt Elísa stúdentsveislu heima með sínu nánasta fólki. Hún er að eigin sögn sérstaklega ánægð með veisluna þar sem athyglin var öll á henni. Elísa er nefnilega tvíburi og vön því að þurfa deila sviðsljósinu með öðrum.

„Ég fékk að hafa mína eigin veislu því tvíburabróðir minn er ekki að útskrifast fyrr en eftir hálft ár. Það var stóráfangi út af fyrir sig að fá að vera algerlega ein með veisluna,“ segir Elísa að lokum.

Óhefðbundin útskriftarathöfn

Að þessu sinni brautskráðust 322 nýstúdentar frá Verzlunarskólanum, 320 úr dagskóla og tveir úr fjarnámi. Útskriftarhópurinn samanstóð af 202 stúlkum og 120 piltum.

Var þetta síðasti árgangurinn sem Ingi Ólafsson, skólastjóri Verzlunarskólans, útskrifar en hann mun senn láta af störfum eftir 32 ár hjá skólanum, þar af 14 ár sem skólastjóri.

Eins og hefð er fyrir hélt Ingi ræðu á útskriftinni, þar sem hann talaði um hvernig hefðbundið skólahald fór úr skorðunum á árinu 2020 og nemendur þurftu að vera stóran hluta ársins heima á meðan kennslan fór fram í gegnum netið.

Sama má segja um brautskráninguna sem var óhefðbundin í ár. Ingi stóð einn uppi á sviði í hátíðarsal skólans og talaði til nemenda og gesta í gegnum upptökuvélar en vegna fjöldatakmarkana var brautskráningin í beinni útsendingu.

Útskriftarnemendur sátu flestir í sínum heimastofum í skólanum og fylgdust með brautskráningunni á skjám og biðu eftir því að vera kallaðir inn til að taka á móti skírteinum sínum. Foreldrar fengu svo að koma í skólann þegar komið var að brautskráningu bekkjar þeirra barns.

322 nýstúdentar útskrifuðust frá Verzlunarskólanum 29. maí.
322 nýstúdentar útskrifuðust frá Verzlunarskólanum 29. maí. Ljósmynd/Þorgeir Níelsson
mbl.is