Hiti rjúfi 20 stiga múrinn allnokkra daga á Austurlandi

mbl.is/Styrmir Kári

Í dag má fagna því að restin af því kalda lofti sem legið hefur yfir landinu að undanförnu fer. Mun hlýrra loft sunnan að úr höfum verður ríkjandi á næstunni. Að jafnaði verður ekki svo mikill munur á hitafari sunnan og vestan til á landinu, en að jafnaði verður hiti 8 til 13 stig enda sjaldgæft að hiti áveðurs sé mjög hár. 

Fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands að á austurhelmingi landsins verði talsverðar breytingar á hitastigi og verði að sjá allnokkra daga þar sem hiti ætti að rjúfa 20 stiga múrinn, þar sem best lætur. Eins verður væta á köflum, þótt útlit sé fyrir að komandi helgi sleppi að mestu. 

Hins vegar verður suðvestan til ansi víða hviðótt og meðalvindur verður allhvass suma daga og ættu ferðalangar að skoða spár vel og einnig fylgjast með vegaveðrinu á vef Vegagerðarinnar. Spár eru eindregnar um að hvass vindur verði á morgun, föstudag, og því allt eins líklegt að einhverjir þurfi að breyta ferðatilhögun vegna þess. 

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag:
Suðvestan 8-15, en 10-18 á vestanverðu landinu. Skýjað og fer að rigna vestan til, en bjart með köflum austanlands. Hiti 8 til 22 stig, hlýjast á A-landi.

Á laugardag:
Minnkandi vestlæg átt og léttir víða til, en líkur á þoku við SV- og V-ströndina. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast A og SA-lands.

Á sunnudag:
Suðvestlæg átt, víða fremur hæg og þykknar upp, víða dálítil rigning um kvöldið. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast á SA-landi.

Á mánudag:
Suðvestanátt og léttskýjað NA- og A-lands, en dálítil rigning á V-verðu landinu, einkum árdegis. Hiti breytist lítið.

Á þriðjudag:
Suðvestanátt og rigning, en þurrt að mestu og hlýtt NA-til.

mbl.is