Reglur um Google og Facebook taki gildi hérlendis

AFP

Menntamálaráðuneytið vinnur nú að því að starfsreglur alþjóðlegra tæknifyrirtækja á borð við Google, Facebook, Twitter, Microsoft og TikTok, og alþjóðlegra auglýsenda og auglýsingastofa, taki einnig til starfsemi á Íslandi. Reglur þessar (e. Code of Practise on Disinformation) voru þær fyrstu sinnar tegundar á heimsvísu og tóku gildi innan ríkja Evrópusambandsins árið 2018.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

„Með setningu fyrrgreindra starfsreglna gengust tæknifyrirtækin undir fjölþættar skuldbindingar og þar með við mikilvægu hlutverki sínu í baráttunni gegn upplýsingaóreiðu og miðlun falsfrétta. Mikilvægt er að starfsemi fyrrgreindra fyrirtækja á Íslandi falli einnig undir reglurnar enda geti almenningur með því móti fundið upplýsingar um hverjir standi að baki efni sem birtist á samfélagsmiðlum, t.d. pólitískum auglýsingum og skoðanaauglýsingum, fengið upplýsingar um dreifingu falsfrétta og upplýsingar um ráðstafanir fyrirtækjanna til að sporna gegn ólöglegu efni,“ segir í tilkynningunni. 

Þar kemur fram að fulltrúar ráðuneytisins vinni að málinu í samstarfi við fjölmiðlanefnd og utanríkisráðuneytið. 

mbl.is