Bíða og sjá hvort nýr fasi sé í gosinu

Frá eldgosinu í Geldingadölum.
Frá eldgosinu í Geldingadölum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mögulegt er að nýr taktur hafi myndast í eldgosinu í Geldingadölum. Virkni á gossvæðinu hefur sveiflast mikið undanfarna daga og hafa sveiflur í virkni verið mun ýktari en áður. 

Sigurdís Björg Jónasdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að órói á gossvæðinu hafi lítið breyst frá því í gærkvöldi. 

„Það varð þarna hlé á óróanum í gær og hann reis síðan um kvöldmatarleytið og í gærkvöldi og síðan þá hefur verið stöðugur, hár órói á þessum jarðskjálftastöðum í kringum eldgosið,“ segir Sigurdís og bætir við;

„Við sjáum að það gutlar vel í, mikil virkni.“

Sigurdís segir ekki útilokað að nýr taktur sé kominn í gosið. Vel verði fylgst með þróuninni. 

„Nú bíðum við bara og sjáum, hvort að það sé komin nýr fasi; að óróinn minnki í einhvern tíma og aukist síðan aftur. Það er búið að gerast nokkrum sinnum núna,“ segir Sigurdís. 

Loftgæði á gossvæðinu eru sæmileg nærri mæli Veðurstofunnar á útsýnisstað suðaustan við gíg gossins. Annars staðar eru loftgæði ýmist góð eða mjög góð. 

„Það er alltaf gas, sérstaklega núna þegar kvikan er að komast upp á yfirborðið. Við mælum alltaf með því að fólk fylgist vel með loftgæðum og fylgi þessum almennu reglum sem hafa verið settar,“ segir Sigurdís. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert