Gosóróinn rokkar upp og niður

Undanfarna daga hefur verið talað um að nýr taktur eða …
Undanfarna daga hefur verið talað um að nýr taktur eða fasi sé að myndast í gosinu en hann er enn í mótun að sögn náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gosórói í Geldingadölum hefur rokkað upp og niður eftir að lengsta goshléi frá upphafi gossins lauk í morgun, en það hafði staðið yfir frá því á mánudagskvöld.

„Þetta virðist vera að fara upp og niður en ekki mjög hátt þó. Hann [gosóróinn] er pínulítið að leita upp á við,“ segir Lovísa Mjöll Guðmunds­dótt­ir, nátt­úru­vár­sér­fræðing­ur hjá Veður­stofu Íslands. 

Hreyfingarnar eru litlar í stóra samhenginu að hennar sögn en gætu gefið vísbendingar um að virkni í gosinu sé að breytast, þótt erfitt sé að segja til um það á þessari stundu. 

Undanfarna daga hefur verið talað um að nýr taktur eða fasi sé að myndast í gosinu, en hann er enn í mótun að sögn Lovísu. „Við þurfum að fylgjast með á næstu dögum, hvort að þetta muni halda svona áfram eða breytast aftur.“

Engin kvika er sjáanleg í gígnum þessa stundina en þó rýkur upp úr honum. „Í gærkvöldi sást glóð, en það virðist ennþá verið að flæða undan gígnum sem við sjáum ekki. Það er ennþá eitthvað að gerast, þótt það sé ekki í gígnum sjálfum, það flæðir undir gamla hraunið,“ segir Lovísa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert