Víðir fékk Janssen og þríeykið fullbólusett

Víðir er nú bólusettur.
Víðir er nú bólusettur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víðir Reynisson var kampakátur og nýkominn af hálendinu þegar mbl.is náði tali af honum í Janssen-röðinni fyrir utan Laugardalshöll í dag.

Hann er því sá seinasti af þríeykinu sem fær bólusetningu en Þórólfur fékk seinni sprautu AstraZeneca í síðustu viku og Alma fékk bóluefni Pfizer.

„Frábært að staðan sé þannig núna að allir sem vilja geti komið og fengið bólusetningu,“ segir hann og segist hafa beðið spenntur eftir þessum degi en hann var staddur á hálendinu í fríi þegar hann var boðaður fyrir um tveimur vikum.

„Ég var til dæmis í Kerlingarfjöllum og á Hverárvöllum, síðan fór ég í Loðmundarfjörð,“ segir hann.

„Ég var í til dæmis í Kerlingarfjöllum og Hverárvöllum, síðan …
„Ég var í til dæmis í Kerlingarfjöllum og Hverárvöllum, síðan fór ég í Loðmundafjörð,“ segir Víðir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víðir fékk sjálfur veiruna í faraldrinum og segist hafa fengið þolið að nýju og því lítið mál að ganga um hálendið. Enn skorti hann þó bragð- og lyktarskyn.

Því sé spennandi að sjá hvort bólusetningin hjálpi til við að endurheimta það. „Það eru sumir sem segja að hún hafi hjálpað,“ segir Víðir glettinn á svip, en hann segist ekki hræðast möguleg eftirköst bóluefnisins, svo sem hita og beinverki. „Ef það gerist, þá gerist það bara.“

Treystir Þórólfi

Mikið hefur verið rætt um virkni bóluefnanna gegn Delta-afbrigðinu og hvort mögulega þurfi annan skammt af bóluefni Janssen fyrir meiri virkni.

Spurður hvort hann muni fara í aðra sprautu ef svo ber undir svarar hann: „Já, þá gerir maður það bara, það er ekkert mál ef það verður niðurstaðan af rannsóknum. Í þessu eins og hingað til í faraldrinum þá treystum við okkar bestu vísindamönnum. Þeir styðjast bara við rannsóknir og tölfræði og þegar hún liggur fyrir þá taka menn ákvörðun.“

Og Þórólfur tekur þá ákvörðun?

„Já, hann og hans teymi, hann er með fjölda sérfræðinga með sér í þessu.“

Víðir er sá seinasti úr þríeykinu sem fær bólusetningu.
Víðir er sá seinasti úr þríeykinu sem fær bólusetningu. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert