Undirritaði samninginn við Breta í London

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, undirritaði fríverslunarsamning Íslands og Bretlands við hátíðlega athöfn í London í dag. Ljóst var að samningurinn yrði í höfn í byrjun síðasta mánaðar en hann var loks undirritaður í dag. 

Guðlaugur segir í samtali við mbl.is að með undirritun samningsins séu hagsmunir Íslands í viðskiptum við Breta varðir til langframa. Undanfari þess samnings sem undirritaður var í dag var bráðabirgðasamningur, sem ekki veitti íslensku og bresku atvinnulífi sama öryggi og langtímasamningurinn gerir nú. 

Auk Guðlaugs Þórs undirrituðu samninginn Dominique Hasler, utanríkisráðherra Liechtenstein, Iselin Nybø, iðnaðar- og viðskiptaráðherra Noregs, og Ranil Jayawardena, ráðherra utanríkisviðskipta í Bretlandi.

Viðskipti og fríverslun við Breta tryggð til langframa

„Bæði eru þetta mikil tímamót og gleðiefni. Við erum að tryggja hagsmuni í viðskiptum okkar við Breta og ég er sérstaklega ánægður með þetta þar sem þetta hefur verið forgangsmál hjá mér frá því að ég tók við utanríkisráðuneytinu.

Þetta styrkir og treystir samskipti okkar við Bretland og þetta er ekki bara fríverslunarsamningur sem við undirritum núna, nútímalegur og yfirgripsmikill, heldur er einnig kveðið á um stafræna þátttöku í nútímaviðskiptum, jafnréttismál, lítil og meðalstór fyrirtæki svo eitthvað sé nefnt.“

Auk þessa nefnir Guðlaugur að búið sé að semja um ákvæði er snúa að flugumferð milli Íslands og Bretlands, sjávarútvegsmál og starfsnám og menntun ungs fólks. Sömuleiðis verður skrifað undir samninga er tengjast rannsóknum og vísindalegri þróun, meðal annars á sviði geimvísinda. 

„Og allt er þetta byggt á sameiginlegri framtíðarsýn beggja landa sem við skrifuðum undir, svokallað „vision-paper“, sem kveður á um allt það sem við höfum áhuga á að vinna saman að,“ segir Guðlaugur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert