3 til 5 bólusettir smitaðir til landsins daglega

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Að jafnaði má gera ráð fyrir því að 3 til 5 bólusettir einstaklingar, sem ekki þurfa að fara í skimun við komuna til landsins, komi smitaðir af Covid-19 til landsins daglega. Sóttvarnalæknir segir að engin auðveld leið sé tiltæk til þess að girða fyrir þennan leka á landamærunum. Hann telur að koma þurfi aftur á heimsóknarreglum á hjúkrunarheimilum og sjúkrastofnunum vegna dreifingar kórónuveirunnar innanlands. Þá þurfi að skerpa á einstaklingsbundnum smitvörnum.

Fimm kórónuveirusmit greindust innanlands utan sóttkvíar í gær, þar af tveir hálfbólusettir og þrír fullbólusettir. Þá greindust þrír í tengslum við landamærin.

„Eins og við erum búin að tala um og vara við þá eru að koma smit inn í gegnum landamærin með bólusettum og jafnvel hjá fólki sem hefur áður fengið Covid-19. Hlutfallið af slíkum smitum er kannski innan við 0,1% en þegar það koma hingað daglega 4.000 manns þá eru þrír til fimm sem koma inn á hverjum degi með smit. Það eru bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is.

„Þá er það bara spurningin hvort þessi útbreidda bólusetning hér haldi almennilega. Við vitum líka að þeir sem eru bólusettir geta tekið smit, þannig að þetta er ekki óvænt. Það sem við bindum vonir við er að þeir sem eru bólusettir og taka smit veikist ekki eins alvarlega og ef þeir væru óbólusettir. Erlendar rannsóknir sýna það í raun og veru. Við þurfum að skoða þetta aðeins í því ljósi og ég held að við eigum eftir að sjá aðeins fleiri svona smit á næstunni.“

Engin auðveld leið til að stoppa lekann

Þurfum við ekki að geta girt fyrir það að þrír til fimm komist inn í landið smitaðir daglega?

„Jú, en það er engin auðveld leið til þess að stoppa það nema með því að fækka þeim sem koma hingað til lands. Það er engin auðveld leið til þess að gera það. Við höfum verið að reyna það með því að taka sýni á landamærunum á ýmsan máta, en eins og við höfum greint frá áður þá getum við ekki tekið sýni frá öllum með þann fjölda sem kemur hingað, greiningargetan hér innanlands er líka takmörkunum háð, þannig að við erum að reyna að beita svona ráðum til þess að reyna að lágmarka líkurnar á smiti,“ segir Þórólfur sem ítrekar að ómögulegt sé að koma algjörlega í veg fyrir það að smit komist inn í landið.

„Við höfum sýnt fram á það áður að jafnvel þeir sem eru neikvæðir í fyrstu skimun á landamærum geta greinst með veiruna fimm dögum síðar þannig að það eru allar útgáfur af þessu til. Það er aldrei hægt að koma með þannig aðgerðir að áhættan verði engin.“

Eiga það sameiginlegt að hafa verið á djamminu

Veiran er farin að dreifast á milli fólks innanlands að nýju. Ekki er vitað nákvæmlega hvar fólkið sem greindist smitað í gær komst í snertingu við kórónuveiruna.

„Þetta fólk á það sameiginlegt að hafa verið á skemmtistöðum niðri í bæ. Sama hvort smitin urðu þar eða ekki þá er þetta sameiginlegur snertiflötur. Þetta er ekkert nýtt, þriðja bylgjan byrjaði á skemmtistöðum niðri í bæ. Ég held að dreifingin sé gjarnan þannig að veiran á auðveldast með að dreifa sér á meðal fólks sem er að skemmta sér og er ekki að gæta að sér.“

Þórólfur segir að mest áhætta sé á því að Íslendingar sem koma frá útlöndum komi dreifingu af stað, jafnvel þótt þeir séu fullbólusettir.

„Vegna þess að tengslanet þeirra hér innanlands er miklu stærra en hjá erlendum ferðamönnum,“ segir Þórólfur.

„Ég hef verið að hamra á því að fólk sé ekki að fara til útlanda, sérstaklega þeir sem eru óbólusettir. Eins þegar fólk fer til útlanda að það gæti vel að sér þegar það fer til útlanda og þegar það kemur heim. Fari ekki strax í veislur og fari í einkennasýnatöku ef það verður vart við einkenni. Við höfum séð dæmi þess að fólk hafi fundið fyrir vægum einkennum eftir að það hefur komið heim.“

Þarf að skerpa á sóttvörnum

Eru þetta ekki frekar margir bólusettir sem eru að smitast?

„Nei, þetta er undir 0,1%. Það er mjög lítið hlutfall en þegar fjöldinn er mikill sem kemur hingað þá eru þetta nokkrir einstaklingar,“ segir Þórólfur.

Aðspurður segir Þórólfur að smitrakning sé að mörgu leyti erfiðari nú en áður en öllum takmörkunum var aflétt í samfélaginu.

„Að mörgu leyti er hún það. Það getur verið erfitt að finna nákvæmlega út hvar fólk hefur smitast. Smitrakningin gengur ekki bara út á það að finna hvar fólk hefur smitast heldur líka að finna þá sem eru útsettir svo mögulegt sé að setja þá í sóttkví.“

Er fólk almennt of kærulaust?

„Ég hugsa að fólk líti almennt þannig á að þetta sé búið. Sérstaklega þegar fólk er í gleðskap. Svo eru margir sem eru að passa sig áfram. Ég held að það þurfi að skerpa á persónubundnum sóttvörnum, ég held að allir svona fjölfarnir staðir þar sem fólk kemur saman þurfi að halda áfram að hafa sprittbrúsa. Fólk þarf að gæta að sér í þessari grundvallarsmitgát, sérstaklega viðkvæmir einstaklingar,“ segir Þórólfur.

mbl.is

Bloggað um fréttina