Tóku tilboði Háfells ehf.

Byggt á spítalalóðinni.
Byggt á spítalalóðinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nýr Landspítali ohf. hefur tekið tilboði Háfells ehf. í jarðvinnu á rannsóknahúsi sem er ein fjögurra nýbygginga spítalans.

Tilboðið var 96,4 prósent af kostnaðaráætlun eða rúmar 164 milljónir. Í rannsóknahúsinu sameinast öll rannsóknastarfsemi spítalans á einn stað, svo sem meinafræði, rannsóknakjarni, klínísk lífefnafræði og blóðmeinafræði, sýkla- og veirufræði auk Blóðbankans. Þar verður einnig líkhús, krufning og aðstaða fyrir réttarmeinafræði. Gert er ráð fyrir að jarðvinna hefjist síðar í sumar og að henni ljúki í upphafi árs 2022.

Fjórir hópar í forvali

Þá voru þátttökutilkynningar opnaðar hjá Ríkiskaupum í gær í forval vegna fullnaðarhönnunar á húsi heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands á Hringbrautarsvæðinu, sem er hluti af uppbyggingu á nýjum Landspítala. Nýbyggingin verður um 6.600 fermetrar og gert er ráð fyrir að öll starfsemi heilbrigðisvísindasviðs flytjist þangað. Fjórir hópar tilkynntu sig inn í forvalinu en þeir eru leiddir af fyrirtækjunum Arkþing Nordic, Corpus3, Mannvit og Verkís. NLSH og Háskóli Íslands fara nú yfir tilkynningarnar og birta niðurstöðu um miðjan ágúst um hæfni hópanna til að taka þátt í lokuðu útboði, sem gert er ráð fyrir að verði opnað í október.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert