Sprakk líklega skammt frá Hrafnabjörgum

Stjarnan á myndinni táknar staðinn sem talið er að loftsteinninn …
Stjarnan á myndinni táknar staðinn sem talið er að loftsteinninn hafi sprungið á.

Vígahnötturinn sem sprakk yfir Íslandi í byrjun júlí með tilheyrandi drunum á Suðurlandi var líklega sjö metrar að þvermáli og sprakk um það bil 15 kílómetrum norðaustur af Þingvöllum, skammt norður af Hrafnabjörgum í um 37 kílómetra hæð. Vígahnettir af þessari stærð eru sjaldséð fyrirbrigði hérlendis en endurkomutími þeirra til Íslands er mörg þúsund ár.

Hjalti Sigurjónsson, jarðeðlisfræðingur hjá ráðgjafafyrirtækinu Vatnaskilum, reiknaði út staðsetninguna með hjálp gagna úr skjálftamælum frá Veðurstofu Íslands. Hann komst að því að líklega hefði loftsteinninn sprungið um klukkan 22:42 þann 2. júlí.

Ýmsar tilgátur fóru af stað þegar fólk fann fyrir drununum á Suðurlandi en var loks líklegasta tilgátan talin sú að loftsteinn, svokallaður vígahnöttur, hefði sprungið yfir Íslandi og framkallað drunurnar.

Er alveg á hreinu að um vígahnött var að ræða?

„Já, ég held að það sé engin spurning. Það eru líka sjónarvottar sem sáu ljósrák á himni þegar sprengingin varð,“ segir Hjalti.

Aðspurður segir hann um óvenjustóran vígahnött að ræða.

„Steinn sem er sjö metrar í þvermál er með nokkurra ára endurkomutíma á jörðina og mörg þúsund ára endurkomutíma á Ísland.“

Litlar líkur á að finna brot úr vígahnettinum 

Þrátt fyrir að loftsteinninn hafi verið óvenjustór hafa líklega einungis smá brot úr honum komist til jarðar. Reikningar Hjalta gera fólki það auðveldara að áætla hvar væri hægt að hefja leit að brotunum þótt líkurnar á því að finna slík brot séu takmarkaðar.

Hvernig gast þú reiknað út hvar steinninn sprakk?

„Ég nota mynd sem Veðurstofan gaf út og sýnir komutíma á 25 jarðskjálftamælum og hnita upp býsna nákvæmlega komutímana á bylgjunni eins og þeir birtast á þessum mismunandi mælum. Þegar það var komið var hægt að reikna hversu lengi hljóðbylgjan væri að berast frá mögulegum upptakapunkti á hvern og einn mæli og bera saman við mælinguna. Svo er notuð aðhvarfsgreining til þess að finna þann stað sem nálgar best komutímana, þ.e. reikna gildi á komutíma sem passar við mælingu á hverjum stað,“ segir Hjalti. 

„Þessi tilgáta, að steinninn hafi sprungið á þessum stað skýrir eiginlega fullkomlega þessa mældu komutíma svo það er voðalega erfitt að sjá fyrir sér að þetta hafi orðið með einhverjum öðrum hætti.“

Nánar er fjallað um málið á Linkedin-síðu Vatnaskila.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert