Vígahnöttur möguleg skýring á drununum

Frá Suðurlandi. Þar fundust drunurnar víða.
Frá Suðurlandi. Þar fundust drunurnar víða. mbl.is/Sigurður Bogi

Veðurstofan hefur ekki fundið neinar staðfestar skýringar á miklum drunum á Suður- og Suðvesturlandi sem fjöldi fólks á svæðinu varð vart við. Líklegasta skýringin sem stendur er að um vígahnött hafi verið að ræða. 

Samkvæmt stjörnufræðivefnum er vígahnöttur glóandi loftsteinn sem skilur eftir sig rák í loftinu. Vígahnöttum svipar til stjörnuhrapa nema að því leyti að þeir bæði loga og skilja eftir sig rák. 

„Við höfum ekki fundið neinar skýringar sem við getum staðfest,“ segir Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, um drunurnar. 

„Núna er það eina sem okkur dettur í hug að þetta sé vígahnöttur, einhvers konar loftsteinn.“

Um vígahnetti segir m.a. á Stjörnufræðivefnum:

Meðalstórir (nokkrir sentimetrar upp í nokkra metra) vígahnettir springa hátt í lofthjúpnum. Hversu hátt fer eftir stærð og hvort steinninn sé úr bergi eða málmum. Járnsteinar standast hamaganginn betur og geta náð dý[pr]a inn í lofthjúpinn.

Orkan sem þarf til að tvístra stórum steinum á þennan hátt er sambærileg við nokkrar kjarnorkusprengjur, svip[aðar] þeim sem Bandaríkin vörpuðu á Híróshíma og Nagasakí í [s]einni heimsstyrjöldinni. Mælingar benda til að slík sprenging verði að jafnaði einu sinni í mánuði einhvers staðar á Jörðinni, langflestar fjarri mannabyggðum.

Hafi steinninn hægt nægilega mikið á sér áður en hann springur geta smærri brot fallið alla leið til Jarðar. Brotin eru þá ekki ýkja hraðskreið miðað við upphafshraða steinsins. Þau hætta að glóa og eru ósýnileg síðustu 20-30 kílómetrana sem þau falla. Brotin falla þá álíka hratt og ef þau væru látin falla ofan af mjög hárri byggingu — á um eða yfir 100 til 200 km hraða á klukkustund eða svo.

mbl.is