„Strákurinn minn greip í mig“

Horft yfir Laugarvatn. Þar varð fólk vart við drunur, eins …
Horft yfir Laugarvatn. Þar varð fólk vart við drunur, eins og víðar. mbl.is/Sigurður Bogi

Mikill fjöldi frásagna hefur borist mbl.is frá lesendum sem urðu varir við drunur á Suður- og Suðvesturlandi, seint að kvöldi föstudagsins sem nú er liðinn.

Veðurstofa Íslands hefur enga skýringu fundið á hljóðunum, en ljóst má vera að drunurnar heyrðust víða og ekki virðast allir hafa heyrt þær á sama tíma. 

Athygli vekur að sumir greina frá því að þeir hafi orðið vitni að stjörnuhrapi um það leyti sem drunurnar heyrðust. Við leyfum nokkrum lesendum mbl.is að tala sínu máli:

Herdís Ómarsdóttir er stödd rétt hjá Flúðum í sumarhúsi:

„Var að lesa fyrir strákinn minn þegar þetta skrýtna hljóð kom. Hélt fyrst að þetta væri stór jarðskjálfti að koma, hljóðið var svipað, en svo kom enginn skjálfti með. Strákurinn minn greip í mig og spurði með hræðslutón: „Hvað er þetta?““

Hljóðið hafi staðið yfir í um sex til tíu sekúndur, um klukkan 23. „Virkilega skrýtið hljóð,“ segir Herdís.

Halla Margrét Viðarsdóttir er á Selfossi:

„Ég var að slaka á úti í pottinum um ellefuleytið og heyrði bara alveg eins og í þrumum sem fylgja eldingum en heiðskírt er hér yfir og ekki nein þrumuský í nánd.“

Lesandi, sem vildi ekki láta nafns síns getið, hafði eftir maka sínum, sem staddur var við Búlandsel austur af Mýrdalsjökli, að miklar drunur hefðu orðið, „eins og eitthvað væri að hrynja niður, snöggir og háværir dynkir, klukkan sirka á milli 22 og 22.30.“

Drunurnar hafi staðið stutt yfir en mikill hávaði fylgt.

Ágúst H. Bjarnason:

„Ég heyrði þetta þó ég væri innandyra í sumarbústað skammt frá Geysi. Fór út og mætti maríerlunni vini okkar og virtist hún skelkuð og snarsnerist á pallinum. Sá auðvitað ekkert annað, en drunurnar voru greinilegar [...] Eftir á að hyggja minnir mig að þetta hafi verið tvær stuttar drunur. Kannski verið þrjár sekúndur alls. Man þetta óljóst. Ég giska á að þetta hafi verið vígahnöttur eða loftsteinn.“

Hinrik Þór Harðarson:

„Er í Þykkvabænum, heyrði svona eins og tvo þunga dynki eða sprengingar rétt um klukkan ellefu, ekki drunur beint.“

Ragnar Ólafsson:

„Það heyrðist mikill hvellur eins og eldgos í Mosfellsbæ.“

Linda Steinunn Guðgeirsdóttir:

„Ég var uppi í hesthúsi í Þorlákshöfn þegar ég heyrði þessar svakalegu drunur þær líktust tveimur sprengingum.“

Ingvi Smári Hrafnsson:

„Ég og konan vorum stödd í Sléttuhlíð í Hafnarfirði, sem er aðeins lengra en afleggjarinn til Hvaleyrarvatns. Stóðum þar þrjár manneskjur fyrir utan sumarbústað og það var alveg stafalogn, svo bara bresta þessar svakalegu drunur á, við urðum alveg frekar skelkuð því þetta voru frekar djúpar drunur og mjög háværar. Litum alls staðar í kringum okkur og sáum bara ekkert, engan reyk eða neitt slíkt.“

Gunnar Már Zoega:

„Heyrðust vel á Laugarvatni.“

Sveinbjörn Úlfarsson er staddur á Iðu við Laugarás:

„Heyrði þetta um klukkan 22.45. Hélt fyrst að flutningabíll hefði keyrt á Iðubrú. Næstu hugsanir voru loftsteinn, Hekla sprakk, rofinn hljóðmúr eða jafnvel sprenging. Hljóðið var stutt en með töluverðum bassa, sem sagt ekki mjög hvellt. Hélt fyrst að þetta væri hér á svæðinu en þegar ég póstaði á Laugarás - þorpið í skóginum þá kom fljótlega í ljós að fólk hafði orðið vart við þetta á höfuðborgarsvæðinu og allt þar á milli.“

Edda Swan:

„Ég er stödd í sumarhúsi í Snæfokstaðalandi í Grímsnesi og hér hljómaði þetta frekar eins og sprenging.“

Valgerður Jóhannesdóttir:

„Við erum í Gnúpverjahreppi, nálægt Flúðum og heyrðum miklar drunur, kom bara einu sinni.“

Margrét Ívarsdóttir:

Við urðum tvær vel varar við drunurnar í kvöld. Við vorum staddar rétt ofan við Guðmundarlund í Kópavogi. Nokkrum mínútum áður sáum við eitthvað stórfurðulegt á himninum, það var blár ljósneisti sem leit í raun út eins og stjörnuhrap, nema þetta var mjög neðarlega á himninum. Vitum ekki hvort þetta tvennt tengist á nokkurn hátt, en hvort um sig var mjög skrítið.“

Sigurður Árni Jónsson í Kópavogi:

„Ákvað að kanna á netmiðlum hvort eitthvað væri um það sem ég sá, ekki svo löngu eftir heyrði ég þessar drunur,“ segir Sigurður og lýsir svo því sem hann hafði séð:

„Var að vinna úti í garði þegar ég sá það sem líktist stjörnuhrapi nema hvað þetta var mjög skært og ekki það langt í burtu, erfitt að lýsa öðruvísi en mjög svo stór raketta sem glæður þeyttust úr. Mín ágiskun: Loftsteinn að brenna upp í gufuhvolfinu.“

Stefán Friðbjarnarson:

„Ég var að veiða í Elliðavatni í kvöld þegar ég heyrði í drunum milli klukkan 22.15-22.50. Fyrst kom þungur hvellur og síðan drunur í góðar fimm sekúndur, eftir það byrjaði að braka og bresta í handriðinu á brúnni sem er á milli Elliðavatns og Helluvatns en ég fann ekkert fyrir þessu. Mér fannst hljóðið hafa komið milli norð og norðausturs frá Elliðavatni.“

Benjamín Berg Halldórsson:

„Heyrði þessar drunur vel á Selfossi, var í símanum utan dyra, ræddi við bróður minn sem staddur var í Keflavík og hann heyrði þær líka. Hann lýsti þessu eins og hestastóði á hlaupum á malbiki.“

Sóley Sóleyjardóttir:

„Miklar drunur heyrðust úti á Faxaflóa milli klukkan 17 og 17.30. Tvisvar með stuttu millibili. Bý við sjóinn og tók þráðlausu heyrnatólin úr eyrunum og starði út á flóann. Hef aldrei heyrt svona drunur áður. Minntu svolítið á þrumur en samt meiri „mallandi“ drunur og í lengri tíma en venjulegar þrumur.“

Birna Steingrímsdóttir er við Laugarvatn:

Ég hélt að það hefði fallið skriða eða einhver með öfluga áramótabombu, hallast að loftsteini. Hljóðið var eins og mjög öflugar þrumur.“

Guðrún Helga Theodórsdóttir er þar líka:

„Við heyrðum greinileg læti. Hélt að eitthvað væri á þakinu á bústaðnum. Miklir dynkir.“

Kristján Ingi Jóhannsson er í Öndverðarnesi:

„Miklar drunur, aðallega hávaði og ekki hristingur.“

Guðný Karolína Axelsdóttir:

„Gæti útskýrt undarlegt hljóð sem ég heyrði heima hjá mér. Ég bý í Rimum í Flóahreppi og er ekki alveg viss hvað klukkan var en gæti hafa verið einhvers staðar á milli klukkan 22-23 í kvöld. Mér fannst eins og það hafi verið bankað á eldhúsgluggann eða þá eitthvað dottið á gólfið með dynk, mjög skrítið. Maðurinn minn sat rétt hjá mér en heyrði þetta ekki.“

Ólafur Pétursson:

„Heyrði í þessum drunum úr Landsveit. Hljómaði eins og tvær sprengjur með stuttu millibili. Entist ekki lengi eins og myndi gerast með þrumum. Hélt fyrst að þetta væri frá eldgosinu, kom úr þeirri átt.“

Margrét Hrönn Þrastardóttir er nærri Böðmóðsstöðum:

„Það var eins og það hefði orðið sprenging. Á eftir komu drunur, svo leið smá stund og drunurnar heyrðust aftur. Stóð í u.þ.b. 2-3 mínútur. Held það hafi verið upp úr klukkan tíu er þó ekki alveg viss með tímann.“

Jasmin Bischoff var við gosstöðvarnar:

„Ég gat heyrt þetta skýrt. Ég hélt kannski að þetta hefði verið jarðskjálfti, en við fundum ekki neitt. En nokkrum mínútum áður sáum við loftstein á himni. Eða risastórt stjörnuhrap. Kannski kom hann niður einhvers staðar.“

Lesandi við Laugarvatn:

„Heyrðum mjög háar drunur i kringum klukkan 22.30-23. Hljómaði eins og þrumuveður sem gengur ekki upp miðað við veður. Bjuggumst allt eins við höggbylgju eftir á þar sem þetta hljóðaði það öflugt.“

Ási í Mosfellsbæ:

„Ég heyrði drunur mjög hátt í Mosfellsbæ, líktust jarðskjálftahljóði, drunur, enginn hristingur líkt og þrumur, Veit að þetta heyrðist mjög hátt í Vestmannaeyjum og Reykholti.“

Svanhvít á Eyrarbakka:

„Þetta var mikill hvellur, eins og sprengja fannst mér.“

Hermann á Selfossi:

„Veit ekki hvað það var en um klukkan 23 var eins og einhver sprenging hefði orðið. Sonur minn kom til mín og var eitthvað hræddur en ég áætlaði það að um partýstand væri að ræða.“

Guðbjörg Rúna:

„Við erum stödd hér í Hallkelshólum í Grímsnesi og við fundum fjórar drunur sem komu upp undan bústaðinum okkar. Okkur fannst þetta vera jarðskjálti en vorum ekki viss því þetta var öðruvísi heldur en við höfum upplifað áður.“

Helen Teixeira:

„Við vorum fyrir utan húsið okkar nálægt eldfjallinu Heklu og við heyrðum þetta. Við héldum að þetta væri sprenging frá einhverju húsi eða fyrirtæki því þetta var mjög hátt.“

Helga Steinarsdóttir:

„Var stödd í Landsveit ekki langt frá Galtalæk og varð vör við drunur og eins og högg við jörðu en ekki titring.“

Jóna Hjálmarsdóttir:

„Var í golfmóti í Miðdal þegar drunurnar urðu, hélt að þetta væru þrumur.“

Sigríður Ágústsdóttir:

„Ég er í sumarbústað nálægt Galtalæk í Landsveit og heyrði drunurnar mjög greinilega. Ég hélt fyrst að eitthvað hefði hrunið úr hillum í áfastri geymslu – en skildi svo sem ekki hvað það ætti að vera. Það var enginn skjálfti með þessu, bara drunur. Svo leit ég á Heklu – sé hana úr bústaðnum – og ekkert að sjá þar. Það verður spennandi að fylgjast með hvort eitthvað kemur í ljós um hvað þetta var.“

Gná Elíasdóttir:

„Við erum í útilegu hérna í Miðhúsaskógi og við heyrðum einhverjar svaka drunur. Við héldum að það væru þrumur eða eldingar en það var eiginlega heiðskírt hja okkur, þannig okkur brá við þetta. Héldum að þetta væri kannski einhver bíll með ónýtt púströr. En enginn bíll á ferli hér.“

Laufey Hanna:

„Við erum staddar í Brautarholti í útilegu, ég ásamt fjórum vinkonum mínum. Við sitjum hér í rólegheitum að njóta samveru hver annarrar en þá heyrum við hljóð sem minnir helst á prump. Svo var ekki, en okkur fannst þetta hljóma eins og eitthvað væri að detta, og hljóðið kom í bylgjum.“

Gunnar Ólafsson:

„Skömmu fyrir ellefu í kvöld heyrði ég kröftugar drunur eða sprengingar. Ég var staddur nærri hafinu, við Ölfusárós. Þetta voru að minnsta kosti fimm hvellir, sem komu hver á eftir öðrum og fannst mér þeir koma frá svæðinu í kringum Ingólfsfjall. Ég hef ekki upplifað þetta áður á ævi minni.“

Guðmundur Gíslason:

„Ég er staddur í Miðdal, rétt austan við Laugarvatn, og á tólfta tímanum brá ég mér út og heyrði miklar drunur. Það var heiðskírt og sjaldan koma nú þrumur úr heiðskíru lofti. Sjálfur hallast ég að því að flugvél hafi farið yfir hljóðhraða, en þá myndast hljóðbylgjur sem skella með látum niður til jarðar. Einnig gæti verið að loftsteinn hafi valdið þessu, en ég tel það þó ósennilegt.“

Jóhann er staðsettur í Áslandi í Hafnarfirði:

„Þetta var eins og sprenging. Mig grunar að þetta hafi verið loftsteinn að brenna upp í gufuhvolfinu.“

Sigrún Axelsdóttir:

„Ég er hérna á Selfossi og þegar ég heyrði þessar drunur fór ég rakleiðis út í glugga. Ég sá ekkert sem benti til þess að geta gefið frá sér þessi hljóð, ég hélt hreinlega að eitthvað hefði lent á þakinu á húsinu.“

Kristína Ósk Sigurþórsdóttir er í Grindavík:

„Ég var á göngu að skoða gosið og heyrði þessar drunur ásamt þeim sem þar voru. Drunurnar heyrðust vel en jörðin skalf þó ekki. Við héldum að eitthvað hefði brotnað úr gígnum mögulega, en þetta var frekar óhugnanlegt.“

Veronika Hafþórsdóttir:

„Ég var á leið upp á Þorbjörn í Grindavík með vini mínum og þá heyrðum við drunurnar. Þetta var mjög kraftmikið, en við fundum engan skjálfta. Þetta líktist frekar sprengihljóðum.“

Guðrún Helga Bjarnadóttir:

„Við fundum þetta vel í Skálholti. Ég fór að leita að drónum, og svo héldum við mögulega að einhver vél væri í gangi. Okkur fannst þetta samt ekki hljóma eins og þetta kæmi úr einhverri vél. Þetta var um miðnætti og mér fannst þetta vara í langan tíma.“

María Ýr er á Laugarási:

„Ég og maðurinn minn heyrðum drunurnar, en við erum ekki sammála hvernig hljómurinn var. Mér fannst koma þrjú til fjögur prump og svo fjarað út, en manninum mínum fannst þetta vera eitt stórt prump, og svo búið. Okkur fannst þetta hljóma eins og gamall „bíldreki“.“

Sveinn Rafn Hinriksson:

„Drunur heyrðust og fundust í Kópavogi í kvöld, eins og jarðskjálfti, en samt einhvern veginn ekki.“

Kristín Júlíana:

„Mér fannst ég finna drunur á leið úr vinnunni, en ég starfa í Keflavík. Mér fannst þetta hljóma eins og þungar sprengingar en ég spáði svo ekkert meira í þetta.“

Guðni Pálsson:

„Við heyrðum þetta úti á palli hérna í Fljótshlíðinni, drunur eða sprengingu. Ekkert rosalega  hávært en nóg til þess að við spurðum hvort annað hvað þetta gæti verið. Datt til hugar herþota að rjúfa hljóðmúrinn eða loftsteinn.“

Gnúpur Halldórsson:

„Ég fann þetta á pallinum hjá mér í Grafarholti. Ég hélt fyrst að þetta væru venjulegar þrumur, en ekki ský á lofti. Hljóðið minnti samt á venjulega þrumu eða jafnvel sprengingu. Ég taldi þetta mögulega tengjast hlöðnum ögnum í gosmóðunni sem umlykur borgina.“

Alma Björk Ástþórsdóttir:

„Erum í Veiðilundi á Þingvöllum. Heyrðum drunurnar vel og lengi. Ekkert líkt þrumum eða þotu. Fyrsta sem okkur datt í hug var skriða. Svona þung löng einhljóða druna. Engin hækkun eða lækkun í hljóðinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert