Ekki skjólbelti við þjóðveg á Kjalarnesi

s Unnið er að breikkun Vesturlandsvegar. Nýi vegarhelmingurinn er þar …
s Unnið er að breikkun Vesturlandsvegar. Nýi vegarhelmingurinn er þar sem skjólbelti var áður. mbl.is/Unnur Karen

Ekki er gert ráð fyrir skjólbelti meðfram breikkuðum Vesturlandsvegi um Kjalarnes ofan við Kollafjörð. Þar var trjábelti sem var fjarlægt því það stóð í vegstæðinu. Vegagerðin hyggst ekki planta nýju skjólbelti en ætlar að reisa hljóðmön við Grundarhverfi.

„Við reyndum að bjarga skjólbeltinu á tímabili í haust þegar framkvæmdir voru að byrja en það var ekki hægt. Það gleymdist að gera ráð fyrir skjólbelti í veghelgunarsvæðinu,“ segir Guðni Indriðason, formaður Íbúasamtaka Kjalarness. Hann segir að fulltrúar íbúasamtakanna hafi rætt við Vegagerðina um að viðhalda skjólbeltinu, enda hafi það gert sitt gagn.

„Þetta skjólbelti hefur komið í veg fyrir að bílar hafi fokið þarna út af undanfarin ár. Áður gerðist það gjarnan nokkrum sinnum á ári. Nú er skjólbeltið farið og það er ekki langt síðan þarna fauk hjólhýsi.“

Anna Elín Jóhannsdóttir, verkfræðingur hjá Vegagerðinni og verkefnastjóri við breikkun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi, segir að þau tré úr skjólbeltinu sem hægt var að færa hafi verið flutt á skilgreint svæði. Önnur voru felld. Hún kveðst hafa heyrt að Vegagerðin hafi plantað skjólbeltinu á sínum tíma en hafði ekki séð neina staðfestingu þess.

„Við höfum ákveðið fjármagn og reynum að gera veginn fyrir það. Vegagerðin keypti land undir breikkun vegarins. Þessi tré voru inni á einkalandi. Það var ekki keypt land til að planta skjólbelti og það rúmast ekkert meira inni á þessu deiliskipulagða svæði en þegar er komið þar,“ segir Anna.

Hún segir skjólbelti af hinu góða, en Vegagerðin sé ekki mikið í því að planta trjám og alls ekki í land í einkaeigu. Það séu frekar landeigendur, skógræktarfélög eða sveitarfélög sem sjái um það.

Þá bendir Anna á að tré megi ekki vera of nærri vegi. Séu þau of nálægt skapi þau hættu fyrir umferðina. Það mundi því útheimta talsverð landakaup ef Vegagerðin ætti að planta skjólbeltum með vegum.

Anna sagði að í umhverfismati hefðu verið skilgreindar mótvægisaðgerðir vegna hljóðvistar. Því verða gerðar hljóðmanir milli þjóðvegarins og Grundarhverfis á Kjalarnesi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert