Mikill vandi að fá fólk

Keflavíkurflugvöllur vaknar úr löngum dvala eftir faraldurinn.
Keflavíkurflugvöllur vaknar úr löngum dvala eftir faraldurinn. mbl.is/Unnur Karen

Rekstraraðilar á Keflavíkurflugvelli segja mikinn vanda að fá nýtt starfsfólk til vinnu og eftir að fólk sæki um sé erfitt að ná í það. Faraldurinn hefur reynst fyrirtækjum í ferðaþjónustunni erfiður og flestir rekstraraðilar á vellinum fækkað starfsfólki verulega til að koma til móts við tekjutapið.

„Okkur finnst umhugsunarefni, þar sem atvinnuleysi er ansi mikið hér á Suðurnesjum, hvað það gengur erfiðlega að fá fólk í vinnu. Við höfum einfaldlega ekki fengið svör, fólk hefur ekki komið í viðtal að ræða laun og vinnutíma. Erfitt hefur verið að ná til fólks og dæmi eru um að það sé ekki svarað í símann. Þetta er óheppileg þróun,“ segir Bergþór Karlsson, framkvæmdastjóri bílaleigunnar Hölds. Rekstraraðilar á vellinum eru þó bjartsýnir fyrir komandi mánuði og segja umskiptin líkust „sprengju“ og að verulegur þrýstingur hafi myndast á vellinum síðustu vikur.

„Þetta ástand er kvikt svo við verðum að meta stöðuna betur. Þótt þrýstingurinn sé mikill núna og mikil fjölgun þá mun koma jafnvægi á þetta og þá náum við að meta betur raunþörf opnana og starfsmannafjölda,“ segir Elsa Heimisdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs hjá Lagardere, og bætir við að fjölgun ferðamanna til landsins sé framar vonum en langt frá því sem þau þekkja.

„Þegar mest lét tókum við á móti um 110 vélum á dag en núna koma 40 vélar á dag,“ segir Elsa.

Mikil óvissa ríkir enn og aukning smita á heimsvísu af svokölluðu Delta-afbrigði kórónuveirunnar veldur áhyggjum um upprisu ferðaþjónustunnar hérlendis en rekstraraðilar þora ekki annað en að vera bjartsýnir fyrir komandi ár.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »