Sjaldan minna sólskin í borginni en hlýtt á Akureyri

Nýta skal sólina meðan hún skín.
Nýta skal sólina meðan hún skín. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sólskinsstundir í Reykjavík það sem af er júlímánuði eru samtals 64,3, um 50 stundum undir meðaltali. Aðeins er vitað um 13 tilvik þar sem sólskinsstundir þessara daga eru færri síðustu 111 ár, síðast 2018. 

Þetta segir í færslu Trausta Jónssonar veðurfræðings á Moggabloggi hans um fyrstu 20 dagana í júlí.

„Hið tvískipta veðurlag varir enn á landinu, óvenjuleg hlýindi um það austanvert, en dumbungsveður og mun svalara vestra,“ segir í færslunni en hiti mælist töluvert hærri á Norðausturlandi en Suðvesturlandi.

Mesti hiti síðan mælingar hófust

Þá segir að meðalhiti fyrstu 20 daga júlímánaðar í Reykjavík hafi verið 11,1 stig en það er -0,3 stigum neðan meðaltals síðan árið 1991.

Á sama tíma á Akureyri er meðalhiti síðustu 20 daga 14,4 stig en það er 3,6 stigum ofar en meðaltal síðan árið 1991.

Þar að auki er það meira en einu stigi hærra en sá hæsti meðalhiti daganna síðan mælingar hófust árið 1936.

Júlímánuður, það sem af er honum, er jafnframt sá hlýjasti á öldinni ef litið er á landið norðan- og austanvert og miðhálendið sömuleiðis.

mbl.is

Bloggað um fréttina