Björguðu hrúti úr sjálfheldu

Kindur á ferðinni. Myndin er úr safni.
Kindur á ferðinni. Myndin er úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björgunarsveitir tóku þátt í leiðangri í gær til að athuga með fjórar kindur í Tindaskaga neðan Skjaldbreiðar.

Þær voru taldar í sjálfheldu og höfðu líkast til verið þar í um tvær vikur.

Þegar á staðinn var komið stóð þó aðeins einn lambhrútur eftir, að því er segir í Facebook-færslu hjálparsveitarinnar Tintron.

Reynt var að hreyfa við honum með aðstoð dróna en það dugði skammt og ákveðið var að síga að hrútnum. Við það fór hann af stað og náði að lækka sig neðar í brattann. Það endaði á „sæmilegri byltu“, sem kom þó ekki að sök og hélt hann sína leið.

Sex félagar úr Tintron tóku þátt í leiðangrinum ásamt bónda og tveimur úr björgunarsveitinni Ingunni frá Laugarvatni sem fylgdu með úr útkalli að Botnsúlum fyrr um daginn, ofan Þingvalla. Þar höfðu þrír úr Tintron einnig farið í útkall vegna einstaklings sem hafði slasast í göngu. Gengu þeir áleiðis upp í fjall en voru þó ekki komnir að einstaklingnum þegar þyrla Landhelgisgæslunnar hafði náð honum um borð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert