Og þá var húsið sprungið!

Mjólkurbúið hefur slegið í gegn frá því það opnaði og …
Mjólkurbúið hefur slegið í gegn frá því það opnaði og veitingamenn hafa ekki undan. Á torginu er ljúft að sitja í sólinni. mbl.is/Ásdís

Það er ys og þys í Mjólkurbúinu, mathöllinni á Selfossi, sem finna má í nýja miðbænum. Þar hefur verið troðfullt alla daga frá opnun. 

Blaðamaður renndi við í Mjólkurbúinu á Selfossi einn sólríkan eftirmiðdag og kynnti sér veitingastaði þessa fallega húss. Það iðaði allt af lífi, enda má þar finna dýrindismat og -drykki; eitthvað við allra hæfi.

Uppselt þrjá daga í röð

„Þetta er sama pæling og er í Mathöllinni á Hlemmi, minni matseðill en sömu gæðin og hinir staðirnir bjóða upp á,“ segir Sigurvin Jensson, yfirmaður Flateyjar í Mjólkurbúinu.

„Þetta hefur farið fram úr öllum björtustu vonum, það hefur verið sturlað að gera. Ég vissi ekki að það byggju hundrað þúsund manns á Selfossi,“ segir hann og hlær.

Sigurvin hefur í nógu að snúast, enda eru pítsurnar frá …
Sigurvin hefur í nógu að snúast, enda eru pítsurnar frá Flatey vinsælar. mbl.is/Ásdís

„Það eru allir að koma að skoða þetta og núna í þrjá daga í röð höfum við þurft að loka snemma því við höfum klárað allar pítsurnar okkar. Nú er klukkan þrjú og helmingur af hráefninu búinn,“ segir Sigurvin. Spurður hvaða pítsa sé vinsælust, svarar hann:

„Umberto-pítsan er langvinsælust. Hún mokast út.“

Bjór og borgari

„Við sérhæfum okkur í hamborgurum og handverksbjór,“ segir Bárður Árni Wesley Steingrímsson, vaktstjóri hjá Smiðjunni brugghúsi, þegar blaðamaður leit við í upphaf vikunnar.

Bárður er ánægður með viðtökurnar, enda brjálað að gera.
Bárður er ánægður með viðtökurnar, enda brjálað að gera. mbl.is/Ásdís

„Bjórinn er búinn til í Vík í Mýrdal, en hann hefur verið seldur í Vínbúðinni í nokkurn tíma en fyrirtækið var stofnað 2017. Hann er mjög góður, en það eru hér átta tegundir hér á krana,“ segir Bárður og segir þau bjóða upp á mat sem fer sérlega vel með bjórnum.

„Auk hamborgaranna erum við með rif, geggjaðar franskar, „pulled-pork“-samlokur, kjúklingavængi og blómkáls-„vængi“,“ segir Bárður og segir að fólk þurfi að vera óhrætt við að puttarnir verði skítugir.

„Hingað kemur fjölskyldufólk og um helgar meira yngra fólkið. Nú er mánudagur og það er alveg pakkað! Það hefur ekki verið dauð stund síðan við opnuðum.“

Klikkuð stemning

„Við bjóðum upp á steik og fisk og mannamat,“ segir Árni Bergþór Bjarnason, eigandi veitingastaðarins Samúelsson matbars, og á við að þarna sé enginn skyndibiti, heldur matur í fínni kantinum.

„Kálfa-ribeye og steikarlokan eru klárlega okkar aðalsréttir, en spjótin eru líka vinsæl. Skelfiskspjótið virðist vera langvinsælast,“ segir Árni, en hann er matreiðslumeistari og vann áður á Grand hóteli.

Árni Bergþór Bjarnason býður upp á mat í fínni kantinum …
Árni Bergþór Bjarnason býður upp á mat í fínni kantinum og Stellu á krana. mbl.is/Ásdís

„Það er margt fólk hér núna en þetta er ekkert miðað við um helgina, þá var húsið sprungið! En hér er mikil gleði og ég hef mikla trú á að þetta gangi vel áfram. Þessi miðbæjarkjarni er svo vel skipulagður og svo verður tónleikahús hér við hliðina á. Það var klikkuð stemning hér fyrir utan um helgina í góða veðrinu. Svo má bæta því við að nú er komin Stella á krana á Selfossi!“

Það er alltaf pakkað í Mjólkurbúinu á Selfossi en þar …
Það er alltaf pakkað í Mjólkurbúinu á Selfossi en þar er eitthvað fyrir alla í mat og drykk. mbl.is/Ásdís

Rjómapasta og rifinn grís

„Við bjóðum upp á lítil taco sem eru kannski meira í amerískri útgáfu en mexíkóskri,“ segir Árni Evert Leósson, eigandi El Gordito.

„Það hefur verið svo mikið að gera að við höfum ekki náð að bjóða enn upp á allan matseðilinn og höfum því verið að keyra á rækju-, kjúklinga- og rifnum grísa-tacos. Við opnuðum 10. júlí og það hefur verið geðveiki síðan. Við höfum þrisvar fjórum sinnum þurft að loka til að ná að vinna hráefnið. Við kláruðum allt hráefnið um helgina fyrir báða staðina, en ég rek líka pastastaðinn Pasta Romano hér við hliðina á, en við Andri Björn Jónsson erum saman í rekstrinum. Hann er kokkurinn,“ segir Árni og segist bjartsýnn á að það muni ganga vel í haust og vetur.

Andri Björn Jónsson og Árni Evert Leósson kvarta ekki yfir …
Andri Björn Jónsson og Árni Evert Leósson kvarta ekki yfir velgengninni. mbl.is/Ásdís

„Við búum til okkar eigið pasta frá grunni og erum svo með mismunandi sósur. Við reynum að fara nálægt ítölsku línunni með meira af tómötum og parmesan og minna af rjóma. En rjómapastað hefur verið vinsælast,“ segir hann og brosir.

„Af tacos hefur rifni grísinn verið vinsælastur.“

Sagan sögð í Skyrlandi

Á neðri hæð Mjólkurbúsins má finna Ísey Skyr Bar og afar áhugaverða sýningu, Skyrland, sem á eflaust eftir að vekja athygli, jafnt á meðal ferðamanna sem Íslendinga.

„Við erum hér með sýningu um sögu skyrs sem er mjög skemmtileg. Þetta er öðruvísi nálgun á þessa sögu,“ segir Elísabet Ósk Guðlaugsdóttir, rekstrarstjóri Skyrlands og Ísey Skyr Bars.

„Við erum að leggja lokahönd á sýninguna sem opnar innan skamms. Hér er sögð saga skyrs og því mikil tenging við Mjólkurbúið; húsið sem við erum í. Við stílum inn á bæði Íslendinga og útlendinga og munum einnig vera með smakk á skyri. Hér verður hægt að taka á mótum hópum en við höfum fengið inn prufuhópa og erum að þróa smakkið,“ segir Elísabet og segir söluna á skyrbarnum hafa gengið afar vel.

Í Skyrlandi má sjá þessa einstöku kú.
Í Skyrlandi má sjá þessa einstöku kú. mbl.is/Ásdís

„Það er mjög gaman hér og líf og fjör í húsinu. Alltaf brjálað að gera,“ segir Elísabet og leiðir blaðamann í gegnum sýninguna sem er afar skemmtileg.

„Fyrirtækið Verkstæðið smíðaði sýninguna eftir hönnun Snorra Hilmarssonar leikmyndahönnuðar,“ segir Elísabet sem stingur höfði inn í sérhannaðan glerkassa þar sem má sjá grænt gras og bláan himin. Hún sér ekki út, en blaðamaður sér inn.

Elísabet Ósk Guðlaugsdóttir stingur höfði inn í íslenskt sumar.
Elísabet Ósk Guðlaugsdóttir stingur höfði inn í íslenskt sumar. mbl.is/Ásdís

„Hér getur maður upplifað íslenskt sumar og hægt er að ýta á takka og finna lykt af sumrinu! Þetta er alveg geggjað.“

Byggt á gömlum grunni

 „Við bjóðum hér upp á taílenskan mat og sérstakan opnunarmatseðil til að byrja með,“ segir Andri Már Jónsson, eigandi Menam, en sá staður var áður til húsa á Eyrarvegi 8 á Selfossi.

„Eftir fjölmargar áskoranir ákvað ég að opna staðinn aftur, byggðan á sama grunni. Ég er matreiðslumeistari og lærði á Hótel Holti og kom inn á staðinn árið 2002 og hef starfað hjá Menam meira og minna síðan,“ segir Andri og segist yfir sig glaður með móttökurnar.

Andri Már Jónsson hefur ekki undan að búa til taílenskan …
Andri Már Jónsson hefur ekki undan að búa til taílenskan mat ofan í gesti. mbl.is/Ásdís

„Þetta hefur farið fram úr öllum væntingum og erum við mjög þakklát fyrir viðtökurnar sem við höfum fengið. Það hefur komið fyrir að allt hafi hreinlega selst upp, en fólk hefur almennt sýnt því mikinn skilning. Við vinnum mest allt frá grunni og því getur það gerst að hráefni klárist, en eins og einn tryggur viðskiptavinur sagði, það væri ekkert mál, hann væri nú búinn að bíða eftir að fá Menam-mat í þrjú ár,“ segir Andri brosandi.

Það er útlensk stemning á torginu í nýja miðbæ Selfoss.
Það er útlensk stemning á torginu í nýja miðbæ Selfoss. mbl.is/Ásdís

Nánar má lesa um Mjólkurbúið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »