Smitaðir úti í samfélaginu án þess að vita af því

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Merki eru um að nokkur fjöldi fólks sé úti í samfélaginu smitaður af kórónuveirunni án þess að gera sér grein fyrir því, að sögn Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns. Hann segir þessa bylgju smita ólíka því sem áður hefur sést, t.a.m. hafi veiran dreift hratt úr sér um allt land og stóran hluta smita sé ekki hægt að tengja við fyrri smit. Rakningin er erfiðari nú en áður þar sem fólk er mikið á ferðinni. 

88 greindust smitaðir innanlands í gær og var hlutfall jákvæðra sýna af greindum sýnum tæp 5%. Það hefur ekki verið hærra síðan í mars síðastliðnum.

„Rakningin gengur sæmilega, stór hluti af þessum smitum greindist utan sóttkvíar og við erum því ekki með skýra tengingu í önnur smit. Það er eins og hefur verið síðustu daga. Í upphafi er ekki greinileg tenging en svo hefur eitthvað skýrst þegar frá hefur liðið. Það er samt ótrúlega stór hluti sem bara poppar upp án þess að við sjáum neina tengingu,“ segir Víðir. 

Er þetta öðruvísi staða en við höfum séð áður?

„Já, þessi bylgja er öðruvísi. Bæði finnst okkur þetta fara mjög hratt og það er lengi stór hluti greindra smita utan sóttkvíar. Svo höfum við ekki áður séð svona hraða dreifingu um allt land,“ segir Víðir sem bendir á að áður hafi smitin oft byrjað bara á höfuðborgarsvæðinu og hópsýkingar greinst svo annars staðar. 

„Núna sjáum við smit í öllum sveitarfélögum og það er ótrúlega mikil dreifing.”

Skiptir verulega miklu máli að fólk fari í sýnatöku

Víðir segist telja „alveg augljóst“ að nokkuð sé um að fólk sé smitað án þess að gera sér grein fyrir því. 

„Það er fólk þarna úti með engin eða lítil einkenni og er að hunsa þau og fer ekki í sýnatöku. Það skiptir rosalega miklu máli núna að fara í sýnatöku, þegar hlutfall jákvæðra sýna er að hækka svona mikið er það merki um að þetta sé á uppleið. Við höfum auðvitað séð þetta hlutfall mjög lágt, um 2%, en nú er það um 5%,“ segir Víðir. 

Margir af þeim sem hafa greinst smitaðir utan sóttkvíar undanfarið hafa verið með lítil einkenni sem þeir hafa túlkað sem smá kvef.

„Þetta er fólk sem fer bara í sýnatöku vegna þess að við erum að kalla eftir því og það kemur því svo mjög mikið á óvart að hafa smitast,“ segir Víðir.

Smitaðir hafa farið víða og eiga erfitt með að rekja ferðir sínar

Aðspurður segir hann að almananvanrir hafi áhyggjur af því að margir hafi greinst utan sóttkvíar dag eftir dag. Til að snúa því við segir Víðir mikilvægt að fólk með einkenni fari í sýnatöku. 

„Fólk er undanfarið búið að fara svo víða að það hefur ekki verið hægt að rekja ferðir þess almennilega, fólk er búið að hitta svo marga og fara út um allt að það man ekki eftir öllum sem þyrftu að fara í sóttkví og þar af leiðandi kemur svona upp.“

Víðir segir erfitt að ákvarða hvort smit muni koma út úr þeim fáu útihátíðum sem fóru fram um helgina. Lögreglan hefur ekki heyrt af neinum mögulegum brotum á sóttvarnareglum síðan þær tóku gildi á miðnætti. 

„Mér fannst flestir mótshaldarar og þeir sem stóðu fyrir viðburðum bregðast vel við. Á Bræðslunni settu þeir til dæmis grímuskyldu á alla þannig að menn voru að reyna að gera sitt besta.“

mbl.is