Gestum fjölgi umtalsvert með deginum

Tekið á móti gestum á nýja farsóttarhúsinu.
Tekið á móti gestum á nýja farsóttarhúsinu. mbl.is/Sigurður Unnar

Fimmtán manns dvelja nú á nýja farsóttarhúsinu sem opnaði í gær, þar sem Fosshótel Baron er til húsa. Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður farsóttarhúsa, býst við því að gestum muni fjölga umtalsvert með deginum. 145 eru samtals í einangrun í farsóttarhúsunum þremur. 

53 flugvélar á leið til landsins

Gylfi bendir á að til viðbótar séu 180 í skimunarsóttkví. „Við þá tölu mun bætast töluvert í dag miðað við þennan fjölda farþegavéla,“ segir Gylfi og á þá við þær 53 flugvélar sem áætlað er að komi til landsins í dag, samkvæmt vef Isavia. „Við vitum samt ekkert fyrr en fólkið bara birtist.“

Gylfi segist fylgjast með því hve margar vélar koma á hverjum degi og áætla út frá því hve marga starfsmenn þurfi að kalla til og hve mikinn mat þurfi að panta. Að undanförnu hefur farsóttarhúsið tekið á móti 60 til 80 manns á hverjum degi sem koma með flugi. Þá komi einnig um 15 til 20 sýktir einstaklingar.

Stór hluti stúdenta úr Flensborgarskólanum sem komu heim úr útskriftarferð sinni til Krítar í gær dvelur nú í farsóttarhúsunum en 30 þeirra eru smituð af Covid. 

Þeir sem dvelja í farsóttahúsunum eru fáir alvarlega veikir, en Gylfi segir nokkra gesti þó vera með töluverð einkenni. Einkennin koma vanalega fram í lok fyrstu eða byrjun seinni viku einangrunar, en stór hluti gestanna er að byrja sína fyrstu viku. „Þessir einstaklingar eru bólusettir og einkennin geta verið alvarleg,“ segir Gylfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert