Fórnirnar alveg þess virði

„Mér finnst skemmtilegust þessi fína lína sem er á milli …
„Mér finnst skemmtilegust þessi fína lína sem er á milli balletts og nútímadans,“ segir dansarinn Ísabella Tara Antonsdóttir. mbl.is/Ásdís

Við setjumst út í bakgarð á heimili Ísabellu og foreldra hennar, enda er hitastigið tuttugu stig og ekki hægt að vera inni. Hin átján ára Ísabella Tara Antonsdóttir er heima í sumarfríi, en hún stundar dansnám við háskóla í Hollandi. Ísabella heillaðist af dansi strax í æsku og hefur verið dansandi síðan.

Elti drauma sína

„Ég hef verið dansandi frá því að ég var pínulítil. Mamma skráði mig í dans hjá Brynju Scheving þegar ég var þriggja, fjögurra ára gömul því ég var alltaf dansandi,“ segir Ísabella og segist hafa verið þar í dansnámi þar til hún var níu ára, en þá skipti hún yfir í Listdansskóla Íslands.

Hér má sjá Ísabellu litla í ballettkjól.
Hér má sjá Ísabellu litla í ballettkjól.

„Þar hef ég verið síðan, þar til í fyrra þegar ég fór út í nám,“ segir Ísabella, sem dreif sig út í heim aðeins sautján ára gömul til að elta sína drauma.

Nútímadansinn heillar

Ísabella segist hafa lært mikið í Listdansskóla Íslands og auk þess hafi dansarinn og danshöfundurinn Chantelle Carey kennt henni mikið.

„Hún hefur hjálpað mér mikið en ég kynntist henni í gegnum Billy Elliot, en ég dansaði í því verki. Hún kenndi mér líka að koma fram á sviði,“ segir Ísabella sem dansaði einnig í We Will Rock You og veit fátt skemmtilegra en að vera á sviði.

„Mér finnst svo gaman að koma fram; að standa á sviði. Það er ein aðalástæða þess að ég er í dansi og er auðvitað stór hluti af því að vera dansari,“ segir hún og segist í byrjun hafa lært ballett.

„En fyrir þremur árum fór ég að færa mig hægt og rólega yfir í nútímadans og er mjög hrifin af honum. Þótt ég hafi grunn í ballett er það nútímadansinn sem heillar.“

Krefjandi en gaman

Fyrir valinu varð Codarts, alþjóðlegur listaháskóli í Rotterdam í Hollandi, og lærir Ísabella þar dans til BA-prófs, en námið er fjögur ár.

„Skólinn sérhæfir sig í dansi, tónlist og sirkuslistum. Dansdeildin er mjög þekkt víða. Ég fann að ég var tilbúin að fara út og sendi þeim myndband af mér að dansa og komst inn. Ég var þá nýorðin sautján ára. Foreldrar mínir studdu mig í þessu því þau vita að ég hef stefnt á það að verða atvinnudansari síðan ég var kríli, en auðvitað var erfitt að sjá á eftir mér því ég var í raun enn barn.“

Ísabella æfir sig utandyra í Rotterdam.
Ísabella æfir sig utandyra í Rotterdam.

Hvernig er búið að vera í skólanum?

„Þetta er búið að vera ofboðslega krefjandi en rosalega gaman. Ég er yngst þarna, sem er svolítið erfitt stundum. Svo er líka krefjandi að þurfa að sjá um sig sjálf og vera ein og sjálfstæð. Það er alveg erfitt í nýrri borg, og ekki bætti Covid úr skák,“ segir Ísabella.

„Þarna eru krakkar alls staðar að úr heiminum og ég hef eignast fjölda vina. Það hefur verið svo gaman að læra um þeirra menningarheima,“ segir hún, en enska er töluð í skólanum.

Það sem ég elska að gera

Hvernig sérðu fyrir þér ferilinn í framtíðinni?

„Ég er með mjög opinn huga. Mér finnst skemmtilegust þessi fína lína sem er á milli balletts og nútímadans. Nútímadans er mjög tæknilegur og ég vil helst fara út í það. Klassískur ballett er ekki alveg minn tebolli,“ segir Ísabella og segir samkeppni ríkja í bransanum en þó meiri samstaða en samkeppni.

Ísabella stefnir hátt í dansheiminum.
Ísabella stefnir hátt í dansheiminum.

„Þetta er svo lítið samfélag og það er góður stuðningur frá öðrum, þótt það sé líka smá samkeppni.“

Ísabella æfir dans fimm til sex tíma á dag í skólanum, en auk þess stundar hún bóklegt nám sem tengist dansinum. Hún segir álagið nokkuð mikið en þó ekki meira en hún ráði við.

„Auðvitað koma tímabil þar sem maður er alveg útkeyrður og búinn á því. En ef maður vill komast langt í þessum bransa þarf maður að fórna mjög miklu. Það er ákvörðun sem maður tekur sjálfur, hvort það sé þess virði. Mér finnst það þess virði því þetta er það sem ég elska að gera,“ segir Ísabella og segir fórnirnar helst vera þær að félagslífið situr á hakanum.
„Vinir mínir eru eiginlega allir dansarar þannig að þar er líka mitt félagslíf.“
Ísabella segist stefna hátt og að hún sjái fyrir sér framtíð í dansinum.

„Svo er það ekki heimsendir ef ég vil einhvern tímann gera eitthvað annað. En í dag myndi ég ekki vilja gera neitt annað. Ég hef metnað fyrir þessu.“

Ítarlegra viðtal er við Ísabellu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »