Tekinn réttindalaus í níunda sinn

Um klukkan 21:40 í gærkvöldi var bifreið stöðvuð í hverfi 110. Ökumaðurinn reyndist vera réttindalaus, þ.e. með útrunnin ökuréttindi, en maðurinn hefur verið stöðvaður átta sinnum áður fyrir sama brot. 

Þetta kemur fram i dagbók lögreglu. 

Um 17:40 var maður í annarlegu ástandi handtekinn á veitingastað í hverfi 108, en maðurinn hafði þá valdið skemmdum á staðnum. Hann var vistaður sökum ástands í fangageymslu. 

Um klukkan 19:45 var tilkynnt slys í Laugardalslaug, en kona hafði fallið og meitt sig á hendi. Var hún flutt með sjúkrabifreið til aðhlynningar á bráðadeild. 

Þá voru tveir ökumenn stöðvaðir, ýmist fyrir ölvunarakstur eða akstur án réttinda, auk þess sem tilkynnt var um eignaspjöll vegna brots á rúðu í bifreið tvisvar. 

Neitaði að gefa upp kennitölu 

Um klukkan 1:40 í nótt var ofurölvi maður handtekinn í miðbænum. Maðurinn neitaði að gefa upp kennitölu, fór ekki að fyrirmælum lögreglu og hafði uppi hótanir við lögreglumenn. Maðurinn var vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu.  

Þá var nokkuð um líkamsárásir í gærkvöldi. 

Skömmu fyrir klukkan 19 var tilkynnt um tvo menn í annarlegu ástandi í Kópavogi, sem grunaðir eru um líkamsárás. Mennirnir fengu aðhlynningu á bráðadeild og voru svo vistaðir fyrir rannsókn málsins í fangageymslu. 

Klukkan 23:15 var tilkynnt um líkamsárás við Hvaleyrarvatn í Hafnarfirði. Hópur ungra manna með barefli var sagður hafa ráðist á unglinga sem þar voru, en ekki er vitað um meiðsl. Málið var afgreitt með komu foreldra. 

Loks voru tveir menn handteknir í Kópavogi eftir líkamsárás klukkan um 1:20 í nótt. Annar maðurinn átti að vera í sóttkví. Mennirnir voru vistaðir fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

mbl.is