Stjórnvalda að taka ákvörðun um aðgerðir

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason. mbl.is/Árni Sæberg

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að á þessum tímapunkti sé það stjórnvalda að ákveða hvort og þá til hvaða aðgerða verði gripið til að stemma stigu við þróun kórónuveirufaraldursins hér á landi. 

„Það er stjórnvalda að ákveða til hvað aðgerða verður gripið á næstunni og það er þeirra að taka tillit til annarra hagsmuna í samfélaginu,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi almannavarna í dag. 

„Ég held að það sé fyllsta ástæða til að hafa áhyggjur af þessari þróun sem við erum að sjá, þá sérstaklega því álagi sem getur skapast á heilbrigðiskerfið okkar,“ sagði Þórólfur og bætti við: 

„Ég held að það sé komið að því að stjórnvöld þurfi að huga vel að því til hvaða aðgerða eigi að grípa. Það er ekki víst að ég á þessum tímapunkti leggi til einhverjar ákveðnar aðgerðir.“

Þórólfur sagði að á þessum tímapunkti faraldursins sé ljóst hvaða aðgerðir virka. „Ég held að það sé núna stjórnvalda að taka ákvörðun um það, að gefnu áhættumati og útliti, hvort að stjórnvöld séu tilbúin til að grípa til harðra aðgerða,“ sagði Þórólfur. 

Hann mun nú leggja til aðgerðir með öðrum hætti en áður, sumsé ekki formlegu minnisblaði líkt og verið hefur. 

Helmingur innlagðra bólusettur 

Þórólfur sagði á fundinum í dag að um 24 hafi þurft að leggjast inn á sjúkrahús með veiruna í þessari bylgju faraldursins. Helmingur þeirra hafi verið fullbólusettur. Þórólfur sagði að veikindi hjá bólusettum einstaklingum séu þó öðruvísi, t.a.m. eru báðir þeir sem hafa þurft að fara á gjörgæslu óbólusettir. 

Þórólfur sagði einnig viðbúið að Delta-afbrigði veiruna leggist þyngra á börn en fyrri afbrigði. Á þeim grunni sé talið rétt að bólusetja börn, en bólusetning er aftur á móti ekki talin valda góðu hjarðónæmi svo ekki er hægt að búast við því að sjá hjarðónæmi hjá unglingum og börnum, þrátt fyrir bólusetningu. Þau börn sem eru nú í eftirliti Covid-göngudeildarinnar séu aftur á móti með minni einkenni en fullorðnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert