Smitaður fluttur með björgunarbát frá Hesteyri

Gíslí Jónsson björgunarskip á Ísafirði.
Gíslí Jónsson björgunarskip á Ísafirði. mbl.is/Sigurður Bogi

Einstaklingur var fluttur með björgunarskipinu Gísla Jónssyni frá Hesteyri til Ísafjarðar í sýnatöku í gær, en sá er smitaður af kórónuveirunni. 32 þurfa að fara í sóttkví vegna smitsins.

Í heild eru 16 smitaðir á Vestfjörðum og 71 í sóttkví samkvæmt tölum inni á covid.is frá því klukkan 11 í morgun. Súsanna Björg Ástvaldsdóttir, umdæmislæknir sóttvarna á Vestfjörðum, segir einstaklinginn ekki mikið veikan.

Erfitt að finna uppruna smita

Hún segir þessa fimmtu bylgju minna sig á bylgjuna sem var í apríl 2020, að því leyti að erfitt sé að finna uppruna smita.

„Við erum að fá smit sem við náum ekkert almennilega að rekja. Við vitum ekki hvaðan þau koma. Ef fleiri greinast jákvæðir förum við að geta tengt þetta betur saman.“

Súsanna segist búast við fjölgun smita á næstu dögun en veit ekki hversu útbreitt smitið er á Vestfjörðum.

„Við búumst við að smitum fjölgi næstu daga, sérstaklega þegar við erum með svona marga í sóttkví, en við búumst líka við smitum fyrir utan sóttkví. Við hvetjum fólk að koma í sýnatöku um leið og það fær einkenni.“

Sá smitaði var fluttur til Ísafjarðar.
Sá smitaði var fluttur til Ísafjarðar. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is