Forstjóri Landspítalans vill fletja kúrfuna

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. Ljósmynd/Lögreglan

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að huga þyrfti að því að draga kúrfu smita í samfélaginu niður.

Hann fór yfir stöðu spítalans og sagði meðal annars að nýting legurýma á bráðadeildum spítalans væri almennt 95 til 105 prósent en alþjóðleg viðmið gerðu ráð fyrir um 85 prósent nýtingu.

Það skýrist meðal annars af fráflæðisvanda spítalans en 30-40 manns sem hafa lokið meðferð á spítalanum bíða sjúkrarýma á öðrum stofnunum. Innlagnir vegna Covid-19 væru því mikil áskorun fyrir spítalann.

Átján liggja inni á Landspítalanum með Covid-19. Þar af eru þrír á gjörgæslu en enginn í öndunarvél. Tveir lögðust inn í gær og fóru beint á gjörgæslu. 154 greindust með Covid-19 í gær og eru núna 1388 manns með virk smit.

Biðlar til starfsfólk að koma til baka úr fríi

Þá sagði Páll spítalann glíma við mikinn mönnunarvanda. Fram hefur komið að gjörgæsluplássum hafi verið fækkað í sumar vegna sumarfría starfsfólks og þá hafi valkvæðum aðgerðum verði frestað yfir sumarið, en það gæti samkvæmt Páli staðið áfram inn í haustið ef þörf stendur til vegna Covid-19. 

„Það er sumartími, við erum með örþreytt starfsfólk og höfum hvatt það til að fara í frí,“ sagði hann. Hann biðlaði til starfsfólks að snúa til baka úr sumarfríi og sagði þungbært að þurfa að grípa til þess. Þá þakkaði hann starfsfólki spítalans fyrir fórnfýsi og dugnað. 

„Samfélagið þarf að huga að því að toga niður kúrfuna með öllum ráðum ef við eigum að ráða við ástandið,“ sagði hann og bætti við:

„Þegar við erum búin að toga niður kúrfuna þurfum við til lengri tíma að vinna áfram að plönum til að efla sóttvarnarviðbrögð heilbrigðiskerfisins almennt og Landspítalans sérstaklega. Þessi og viðlíka farsóttir eru komnar til að vera.“

Bólusetningar unglinga í undirbúningi

Bólusetningar tólf til fimmtán ára barna eru í undirbúningi en verið er að útvega húsnæði fyrir þær og fara yfir fyrirkomulagið. Þær verða auglýstar þegar endurbólusetningum þeirra sem fengu Janssen-bóluefnið er lokið.

Fram kom í máli Kamillu S. Jósefsdóttur, staðgengils sóttvarnarlæknis, á upplýsingafundinum að þeir sem hafa fengið Covid-19 verði að bíða í þrjá mánuði eftir greiningu smits til að fara í örvunarbólusetningu. Þá standi ekki til að þeir sem hafi áður fengið bólusetningu og séu nú að greinast með Covid-19 fái örvunarbólusetningu þar sem smitið telst til örvunar.

mbl.is