Þegar Churchill heillaði Íslendinga

Churchill heldur ræðu af svölum Alþingishússins.
Churchill heldur ræðu af svölum Alþingishússins. mbl.is
Á morgun, 16. ágúst, verða 80 ár liðin frá heimsókn Winstons Churchill, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, til Íslands. Af því tilefni tók Þór Whitehead, prófessor emiritus í sagnfræði, saman grein fyrir mbl.is, þar sem hann segir m.a. frá þýðingu Atlantshafsfundarins, komu Churchills í Reykjavíkurhöfn, ræðu hans á svölum þinghússins við Austurvöll, hádegisverði í Höfða, för hans að Reykjum og hersýningu á Suðurlandsbraut.
Þór Whitehead.
Þór Whitehead.

Föstudaginn 15. ágúst 1941 tilkynnti breska setuliðsstjórnin á Íslandi að lokað yrði fyrir umferð landsmanna um Suðurlandsbraut (aðalakveg austur úr bænum) og fleiri götur og vegi fram yfir hádegi á laugardag vegna mikillar hersýningar.  Þá mætti búast við eftirtektarverðum „atburði“ við höfnina kl. 10 um morguninn. Þessi tilkynning olli miklu umtali í Reykjavík. Þótti sennilegt að von væri á frægum gesti og voru ýmsir nefndir til.

Eftirvænting jókst, þegar breskir og bandarískir herflokkar hófu liðsæfingar í bænum. Daginn áður höfðu Bretar trúað ríkisstjórn Íslands fyrir því að von væri á Winston S. Churchill forsætisráðherra og leiðtoga Íhaldsflokksins í heimsókn. Virðist nú eitthvað hafa kvisast um að gesturinn væri enginn annar en Churchill. Hann var þá tæplega 67 ára að aldri (fæddur á þjóðhátíðarári Íslendinga 1874) og hafði tekið við embætti sama dag og Ísland var hernumið, 10. maí 1940. 

„Hundruð milljóna manna, dreifð um öll  lönd heims, líta til hans sem foringjans í baráttunni fyrir frelsi mannkynsins, sigri lýðræðisins og friði í framtíðinni.“ Svo lýsti Árni Jónsson frá Múla, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, Churchill daginn, sem hann kom til landsins.

Þar mælti hann eflaust fyrir munn meirihluta Íslendinga. Afstaða Churchills til frelsis, lýðræðis og mannréttinda var þó ekki jafnafdráttarlaus og Árni gaf til kynna, þegar litið var út fyrir Evrópu og Norður Ameríku, sér í lagi til þegna breska heimsveldisins í öðrum heimsálfum.

Roosevelt og Churchill um borð í Prince of Wales, skipi …
Roosevelt og Churchill um borð í Prince of Wales, skipi hins síðarnefnda, „einhvers staðar á Atlantshafi“.

Atlantshafsfundurinn boðaði mikil tíðindi

Daginn áður en Reykvíkingar voru búnir undir eitthvað óvenjulegt við Reykjavíkurhöfn, hafði sú frétt flogið um heiminn að Churchill og Franklin Delano Roosevelt Bandaríkjaforseti hefðu hist á fundi „einhvers staðar á Atlantshafi“. Þeir hefðu gefið út yfirlýsingu, sem virtist jafngilda því að Bandaríkin hefðu látið af hlutleysi í styrjöldinni.

Þessi tíðindi vöktu hvarvetna geysiathygli. Fram til þessa höfðu Þjóðverjar víðast hvar haft betur í styrjöldinni. Þeir drottnuðu yfir öllu meginlandi Evrópu vestanverðri og höfðu nýverið ráðist inn í Sovétríkin. Atlantshafsyfirlýsingin gaf mönnum hins vegar von um straumhvörf. Bandaríkin ætluðu að nýta tröllaukinn mátt sinn til hjálpar andstæðingum Þjóðverja. Það höfðu þau gert í heimsstyrjöldinni fyrri og íhlutun þeirra leitt til ósigurs þýska keisaraveldisins.

Merki um að Bandaríkin væru að búast til að bjarga Evrópu öðru sinni undan þýsku ofurvaldi hafði einmitt komið skýrast fram í samskiptum þeirra við Íslendinga. Í júní 1941 hafði Roosevelt Bandaríkjaforseti boðið ríkisstjórn Íslands að frumkvæði Churchills að leysa hér breskt hernámslið af hólmi í áföngum. Ísland hafði lýst yfir „ævarandi hlutleysi“ og mótmælt hernámi Breta.

Ríkisstjórnin vissi því auðvitað að það stríddi gegn hlutleysinu að þiggja herverndarboð Roosevelts. Það hafði hún engu að síður gert með ýmsum skilyrðum og bandarískt landgöngulið stigið á land í Reykjavík 7. júlí, röskum mánuði áður en Churchill boðaði komu sína til Íslands. Í fyrsta sinn frá lokum fyrra stríðs hafði bandarískur her komið sér fyrir á evrópskri grundu Hitler til ærinnar gremju. Vorið 1940 hafði hann sjálfur ætlað sér að hremma landið.

Allt frá því að Frakkland féll fyrir þýskum innrásarher sumarið 1940, höfðu Bretar keppt að því að fá Bandaríkin til að taka við vörnum Íslands. Með því að Roosevelt færði hingað út varnarlínu Vesturheims, hlyti Bandaríkjafloti óhjákvæmilega að skerast í leikinn á Norður-Atlantshafi, þar sem þýski kafbátaflotinn herjaði nú af mestum móð. Ísland yrði fyrsti stólpinn í brúnni, sem Bandaríkjaher reisti austur um hafið til Bretlandseyja og þaðan yfir til hernumins meginlandsins.

Bæklingur sem gefinn var út um heimsókn Churchills.
Bæklingur sem gefinn var út um heimsókn Churchills. mbl.is

Á Atlantshafsfundinum fyrrnefnda, sem fram fór á flóa á Nýfundnalandi, hafði Bandaríkjafloti raunar skuldbundið sig til að verja siglingaleiðina frá Bandaríkjunum til Íslands. Churchill gat verið þess fullviss að stríð hlyti fyrr eða síðar að skella á milli Bandaríkjanna og Þýskalands. Þess vegna hafði hann lýst yfir því, að bandarísk hervernd yfir Íslandi væri einn mikilvægasti atburður, sem gerst hefði, frá því að styrjöldin hófst.

Nú hafði hann ærna ástæðu til að halda upp á þennan  árangur sinn með því að sækja heim Ísland undir bandarískri hervernd. Ferðin hafði ekki aðeins stórpólitískt gildi í Evrópu heldur einnig í Asíu, þar sem Japanar gerðu sig líklega til að notfæra sér stríðsgæfu bandamanna sinna, Þjóðverja, til að hertaka nýlendur Breta og annarra Evrópuríkja og ráðast á Bandaríkin. Íslandsferðinni var ætlað að hnykkja á því að með Atlantshafsyfirlýsingunni hefðu breska heimsveldið og Bandaríki Norður Ameríku í raun gengið í bandalag gegn sameiginlegum óvinum sínum, Öxulveldunum. Yfirlýsingin er ekki aðeins talin hafa markað þáttaskil í styrjöldinni, heldur megi finna í henni vísi að stofnun Sameinuðu þjóðanna 1945 og Atlantshafsbandalagsins 1949.

Aldrei hefur Ísland haft annað eins vægi í heimstaflinu og fyrir 80 árum, þegar ríkisstjórn þessa hlutlausa lands greiddi vísvitandi fyrir þátttöku vesturheims-stórveldisins í ófriðnum. Fyrir það taldi Churchill Bandamenn vera í þakkarskuld við Íslendinga. Það kom skýrt fram undir lok stríðsins, þegar hann beitti sér fyrir því að Ísland fengi inngöngu í Sameinuðu þjóðirnar án þess að þurfa að lýsa yfir styrjöld við Þýskaland. Íslendingar hefðu ,,innt af hendi mikilsverða aðstoð“ við Bandamenn með því að gera herverndverndarsamning við Bandaríkin í trássi við hlutleysi sitt og tryggja þannig „lífsnauðsynlega samgönguæð til Bretlandseyja.“ 

Gæfa Íslands

Með herverndarsamningnum við Bandaríkin höfðu örlög Íslands í ófriðnum verið ráðin á farsælasta hátt. Sjóvarnir héldust í höndum Breta, en Bandaríkjamenn tryggðu Íslendingum öflugar landvarnir eftir því sem þeir leystu breska landherinn smám saman af hólmi fram til 1942. Bæði Atlantshafsveldin studdu jafnframt rausnarlega við íslenska utanríkisverslun og atvinnulíf.

Í landinu ríkti því áfram góðæri engu líkt, á meðan styrjaldarbálið geisaði í öðrum Evrópulöndum. Þegar bálið slokknaði loks var Ísland, sem rambaði á barmi gjaldþrots í upphafi stríðs, orðið eitt ríkasta land heims. Stuðningur Bandaríkjanna við Íslendinga skipti sköpum um stofnun lýðveldisins 1944 og það, sem eftir lifði 20. aldar, veittu Bandaríkin því ómetanlegan stuðning á fjölmörgum sviðum.

Gestur af hafi

Laugardagur 16. ágúst 1941 rann upp bjartur og fagur. Um morguninn fengu dagblöðin og ríkisútvarpið staðfestingu á því að Churchill væri væntanlegur, en var bannað að skýra frá því opinberlega. En fréttin spurðist eitthvað út (svo hættulegt sem það hefði getað verið gestinum), forvitni fólks hafði verið vakin daginn áður og talsverður fjöldi fólks safnaðist saman við Reykjavíkurhöfn. Þá hafði sést til risavaxins orrustuskips (stærsta gerð herskipa) á leið inn í flotastöð Bandamanna á Hvalfirði ásamt sjö fylgdar-tundurspillum.

Það var ekki að ófyrirsynju að gætt væri ströngustu leyndar, þegar Churchill sigldi yfir Atlantshaf. Hafið var vígvöllur og ætla mátti að Þjóðverjar létu einskis ófreistað til að tortíma þessum höfuðóvini sínum, fengju þeir fréttir af ferðum hans. Gert var ráð fyrir því að þeir myndu láta kafbáta sína sitja fyrir flotadeildinni, senda langfleygustu sprengjuflugvélar sínar til árása á hana og tefla fram bryntröllinu Tirpitz (öflugasta orrustuskipi heims), systurskipi ógnvaldsins Bismarcks, sem Bretar höfðu þurft að beita öllu sínu afli við að sökkva þá um vorið.

Churchill hafði sjálfur engar áhyggjur af þessu, en samstarfsmenn hans þeim mun meiri. Þeir urðu að gera ráð fyrir því (sem ekki var raunin) að Þjóðverjar hefðu njósnara á Íslandi, sem sent gætu upplýsingar til þýska hersins með loftskeytum. Bandamannaherirnir á Íslandi gripu því til ýmissa varúðarráðstafana vegna væntanlegrar komu Churchills og ein var sú að rjúfa nú allt símasamband við Reykjavík. Þetta átti eftir að valda mörgum áhyggjum þennan dag úti á landi, því að menn óttuðust að bærinn hefði orðið fyrir loftárás eða jafnvel innrás Þjóðverja. Þannig var loft lævi blandið þessi ár, þótt fólk gerði sem minnst úr því að ófriðnum loknum.

Og sjá, klukkan ellefu (klukkustund á eftir áætlun) renndi grár, kanadískur tundurspillir úr Hvalfirði inn um mynni Reykjavíkurhafnar og lagðist upp að Grófarbryggju. Þar höfðu herflokkar tekið sér stöðu ásamt yfirmönnum Bandamannaherjanna og sendimönnum Breta og Bandaríkjanna á Íslandi. Sekkjapípuhljómsveit skosks herfylkis hóf að leika lag og í land gekk glaðlegur „lítill maður og gildur, snarlegur í hreyfingum í bláum stuttfrakka með kaskeiti“, eins og Fálkinn orðaði það. Eftir stutta móttökuathöfn gekk Churchill upp bryggjuna með staf í hendi, en fyrir enda hennar beið mannfjöldi. Við hlið hans gengu snöfurmannlegur lögreglulífvörður frá Scotland Yard í ljósum rykfrakka og breski sendiherrann, C. Howard Smith, góðlegur maður, svartklæddur að sið diplómata.

Churchill við komuna til Reykjavíkur. T.h. lífvörður hans frá Scotland …
Churchill við komuna til Reykjavíkur. T.h. lífvörður hans frá Scotland Yard og sendiherrann Howard Smith. mbl.is

Á eftir fór fylgdarlið Churchills, þar á meðal æðstu yfirmenn breska heraflans og foringjar herjanna á Íslandi. Á meðal þessara orðum prýddu og nafntoguðu herstjóra skar sig úr ungur lautinant úr Bandaríkjaflota, brosmildur og laglegur með snjakahvíta einkennishúfu á höfði. Þeir Howard Smith voru álíka hávaxnir og báru höfuð og herðar yfir hópinn. En það gerði lautinantinn líka í öðrum skilningi. Þessi lágt settasti herforingi hópsins var tvímælalaust langmikilvægasti samferðarmaður Churchills til Íslands.

Bandaríkjaforseti hafði fengið forsætisráðherranum tvo tundurspilla til verndar farkosti hans, nýja orrustuskipinu Prince of Wales (um 44.000 lestir), og skipað þennan son sinn sérstakan fylgdarmann hans í Íslandsferðinni.  Þetta átti að vera skýrt tákn um að þeir Churchill væru nú vopnabræður, sem strengt hefðu þess heit við strönd Atlantshafs að slíðra ekki sverðin, fyrr en ófreskja nasismans hefði verið að velli lögð.

Þegar hópurinn gekk út um hafnarhliðið, lustu mannfjöldinn og sjómenn á nálægum skipum upp fagnaðarópum, karlar tóku ofan hatta sína og húfur og brostu við gestinum. Hann heilsaði fólkinu hinn kátasti með  fingurtákni, sem hann hafði nýlega tamið sér: V-for Victory (fyrir sigri). 

Magnús Erlendssson, síðar framkvæmdastjóri, segir það hafa verið ógleymanlegt augnablik fyrir sig, tíu ára snáða, að skiptast á þessari kveðju við þann mann, sem hann og félagar hans litu á sem „bjargvætt“ Íslands og lýðræðisríkjanna. Síðar átti Magnús eftir að verða heimildarmaður um viðbrögð við komu Churchills og tengjast alþjóðlegum samtökum, sem halda á lofti minningu hans.  

Frá höfninni var Churchill og fylgarmönnum ekið að Alþingishúsinu og lá leiðin framhjá versluninni Nora Magasin við hlið Hótel Borgar. Í sama bili var ungri afgreiðslustúlku, Kristínu Valdimarsdóttur, litið út um glugga. Hún hafði ekki fengið neinar fréttir af gestakomunni, en sá nú bregða fyrir kunnuglegu andliti úr blaðaljósmyndum og fréttakvikmyndum: „Já, þarna er Churchill,“ hugsaði hún eins og ekkert væri sjálfsagðara en hann ætti leið um Pósthússtræti. En jafnskjótt rak hana í rogastans: „Drottinn minn dýri, þetta var Churchill!“

Churchill talar af svölum Alþingishússins

Í Alþingishúsinu tóku Sveinn Björnsson ríkisstjóri (síðar forseti) og ríkisstjórn Íslands undir forsæti Hermanns Jónassonar (Framsóknarflokki) á móti Churchill og fylgdarliði. Gesturinn vissi auðvitað að hér væri vinum að mæta. Það höfðu ríkisstjóri og ráðherrar sannað í orði og verki með nánu samstarfi við Breta og síðar Bandaríkjamenn á erfiðleikatímum. Churchill minntist meðal annars á kröfur Þjóðverja um flugaðstöðu í landinu skömmu fyrir stríð. „Þið voruð heppnir að leyfa ekki Þjóðverjum að fljúga hingað.“ Ella hefðu Bretar „þurft að taka landið, hvað sem það kostaði.“ 

Þéttur hópur fólks hafði verið saman kominn við Alþingishúsið, þegar gestirnir gengu þar inn um framdyrnar. Síðan hafði fjölda manns drifið að frá höfninni og fyllt allar nálægar götur. Lögreglan þurfti þó ekki að bægja fólki frá gangstéttinni. Um Kirkjustræti lá opinn og óhrjálegur skurður vegna símalagnar og malarbingir voru á víð og dreif, sem fólk sóttist eftir að standa á til að geta horft yfir mannþvöguna. 

Á meðan ráðamenn spjölluðu saman, barst öðru hverju þungur dynur inn í Alþingishúsið frá lófataki mannfjöldans, sem vildi hvetja heiðursgestinn til að koma út á svalirnar.  Brátt opnuðust þar dyr og út stigu Sveinn Björnsson og Hermann Jónasson, sem tilkynnti að Churchill vildi ávarpa fólkið. 

Þegar hann birtist berhöfðaður í dökkbláum, fornlegum einkennisfötum Konunglega siglingaklúbbsins, sem minntu á gamlan íslenskan sýslumanns- eða skipstjórabúning með gylltum hnöppum, „kváðu við glymjandi árnaðaróp mannfjöldans.“ Churchill talaði blaðalaust í látlausum samræðustíl, „afar hýr á svipinn og brosleitur.“

Þar sem honum lá fremur lágt rómur, heyrðist ávarpið illa. Engu að síður orkaði  kynngimögnuð rödd ræðuskörungsins sterkt á menn, þegar lágur rómurinn barst út yfir Austurvöll.  Ávarpið sýndi, hve ótrúlega vel þessi önnum kafni heimsveldisleiðtogi hafði kynnt sér afstöðu þorra Íslendinga til hernámsins, vonir þeirra og ótta um framtíðina. Hvert orð var þrungið merkingu:

„Mér er það gleðiefni að hafa nú fengið tækifæri til þess að heimsækja Ísland og þessa þjóð, sem lengi hefur unnað frelsi og lýðræði og átt þátt í því að halda uppi merki lýðræðisins í heiminum.

Við Bretar, og síðar Bandaríkjamenn, höfum tekið að okkur að bægja ófriðnum frá Íslandi. Ykkur mun ljóst, að ef við hefðum ekki komið hingað, þá hefðu aðrir orðið til þess.

Við munum gera okkar besta til þess að dvöl okkar hér valdi ykkur sem minnstum erfiðleikum. En landið er, eins og sakir standa, mikilvæg stöð í baráttunni um vernd þjóðréttinda.

Við munum sjá um, ásamt Bandaríkjamönnum, að Ísland fái fullt frelsi, þegar þeirri viðureign, sem nú er háð, lýkur. Það er takmark okkar, að menningarfortíð ykkar megi tengjast framtíðarmenning ykkar sem frjálsrar þjóðar.

Ég óska ykkur öllum góðs gengis á þessum erfiðleikatímum og vona, að hagsæld og hamingja falli ykkur í skaut um alla framtíð.“

Að þessu ávarpi loknu „dundi við lófatak og fagnaðarlæti, sem ekki linnti meðan hann var úti á svölunum“.  Þegar ávarpið birtist síðan í blöðunum, var ljóst að ræðumaður hafði hitt beint í mark.

Winston Churchill, forsætisráðherra Bretlands, gengur út úr Alþingishúsinu við Austurvöll.
Winston Churchill, forsætisráðherra Bretlands, gengur út úr Alþingishúsinu við Austurvöll. mbl.is

Hersýning á Suðurlandsbraut

Frá því um morguninn hafði þungur straumur herbíla legið inn á Suðurlandsbraut. Fjölmennu liði hafði verið skipað í fylkingar, sem náðu yfir rösklega tvo km af steyptri brautinni. Nærri Hálogaland (þar sem Glæsibær stendur nú) hafði verið komið upp palli, þar sem breski fáninn blakti við hún í sumargolunni á hárri stöng. Á bak við pallinn setti herstjórnin upp miðstöð í tjöldum og þar var komið fyrir ratsjárstýrðri loftvarnabyssu til varnar.

Þótt ósennilegt væri að Þjóðverjar hættu á að egna Bandaríkin í stríð með árás á Ísland, varð herstjórnin að gera ráð fyrir því að þýsk sprengjuflugvél eða -flugvélar kynnu að steypa sér yfir herfylkingarnar og pallinn með sprengjukasti og vélbyssuskothríð. Hvað eftir annað höfðu þýskar sprengjuflugvélar flogið yfir bæinn í könnunarskyni og ætíð sloppið undan Bretum.

Um klukkan 12.15 kom Churchill á vettvang úr Alþingishúsinu með fylgdarliði. Hann gekk síðan meðfram öllum fylkingunum á Suðurlandsbraut með staf í hendi, tók hermenn, þar á meðal herhjúkrunarkonur, tali í léttum dúr. Hann spurðist fyrir um líðan þeirra og hvernig þeim líkaði Íslandsdvölin, en kallaði til annarra hvatningarorð, uns hann kom að pallinum við Hálogaland, þar sem hermannaraðirnar enduðu. Þá höfðu safnast þar saman sendimenn erlendra ríkja á Íslandi. 

Þá hófst herganga, sú mesta sem fram hefur farið hér á landi, og tók rösklega eina klukkustund. Fyrstir fóru yfirmenn allra greina Bandamannaherjanna á Íslandi hjá pallinum, en á eftir þeim fór hljómsveit landgönguliðs Bandaríkjaflota (U.S. Marines) með dynjandi lúðraþyt og bumbuslætti og tók sér stöðu gegnt pallinum. Síðan tók ein fylkingin og herhljómsveitin við af annarri. Foringi hverrar fylkingar heilsaði að hermannasið og Churchill svaraði á sama hátt.

Lýsing á fylkingunum, sem á eftir komu, sýnir hve fjölbreytilegur Bandamannaherinn og hjálparlið hans á Íslandi var. Næst á eftir hljómsveitinni þrammaði liðsflokkur bandarískra landgönguliða. Var til þess tekið hve glæsilegir menn og vígalegir þar færu, enda sannkallað úrval þess fámenna hers, sem Bandaríkin héldu úti enn sem komið var. Stór hluti þessara glæsimenna átti eftir að falla í víti Kyrrahafsstyrjaldarinnar við Japana.

Þá komu flokkar bandarískra sjóliða og flugliða, en Roosevelt forseti hafði fyrirskipað að hingað yrði send án tafar sveit orrustuflugvéla einkum til varnar Reykjavík, þótt sár skortur væri á slíkum flugvélum, eins og í ljós kom í árás Japana á Perluhöfn (Pearl Harbor) um veturinn. Á eftir Bandaríkjamönnum komu síðan hinar ýmsu herfylkingar Breta og samveldisþjóða þeirra, Ástrala og Nýsjálendinga, svo og Norðmenn.

Þessi sýning var áhrifamikið tákn þess að Bretar og samveldisþjóðir þeirra stóðu ekki lengur einar gegn ægivaldi nasismans. Sjálfur segir Churchill svo frá í stríðssögu sinni, að hergöngulag bandaríska landgönguliðsins hafi orkað svo sterkt á huga hans, að hann hafi aldrei ætlað að losna við það.  Hann virðist annars hafa slegið á létta strengi að göngunni lokinni og undir mynd af honum með frásögn um sýninguna stóðu þessi þakkarorð: „Not a bad show boys!“ (Ekki slæm sýning, drengir).

Hersýning á Suðurlandsbraut.
Hersýning á Suðurlandsbraut. mbl.is

Uppreisn í Höfða

Nú lá leiðin niður í Höfða, aðsetur breska sendiherrans, sem boðið hafði Churchill og fylgdarliði í miðdegisverð. Á fimmtudegi hafði breska sendiráðinu verið tilkynnt um væntanlega komu Churchills með ströngustu leynd. Óskað var eftir því að sendiherrann sæi forsætisráðherranum og fylgdarliði, um 30 manns, fyrir miðdegisverði.

Í Höfða störfuðu þá þrjár íslenskar vinnustúlkur, allar um þrítugt, hæfileikaríkar, framtakssamar og röskar stúlkur, enda voru störf hjá erlendum sendimönnum afar eftirsótt. Þegar bresk hefðarfrú, sem tekið hafði að sér að vera ráðskona frænda síns, breska ræðismannsins, óskaði nú eftir því að stúlkurnar undirbyggju og reiddu fram miðdegisverð fyrir 30 ókunna gesti á laugardegi, er sagt að þær hafi með öllu synjað því!

Eins konar neyðarástand ríkti í breska sendiráðinu, því að ekki mátti ráðskonan fyrir nokkurn mun segja stúlkunum frá því hvaða gesta væri von.  Breska ráðskonan var sem betur fer vinsæl og vel látin af vinnustúlkunum. Er sagt að hún hafi þurft að beita öllum sínum kunnu persónutöfrum og sannfæringarkrafti til að telja þær á sitt band. Hér giltu engin bresk stéttalögmál um húsbændur og þý.

Churchill og Valtýr Stefánsson ritstjóri Morgunblaðsins.
Churchill og Valtýr Stefánsson ritstjóri Morgunblaðsins. mbl.is

Hóf í Höfða

Það var líklega lagni ráðskonunnar að þakka, að nú stóð til reiðu hlaðborð í Höfða með alls kyns kræsingum fyrir gestina og höfgum veigum. Íslensku stúlkurnar voru í sjöunda himni yfir því að fá tækifæri til að hitta sjálfan Winston Churchill og gera honum veislu við Sundin blá, sem skörtuðu sínu fegursta þennan dag.

„Quite good“ (dágóð) var dómur ráðuneytisstjóra breska utanríkisráðuneytisins, Sir Alexanders Cadogans, um máltíðina. Íslensku vinnukonurnar hefðu mátt vel við þann dóm  una. Ráðuneytisstjórinn var heimsvanur jarlssonur af vellauðugum háaðli Englands, sem ekkert sparaði til matseldar í höllum sínum. En þótt veislan tækist vel og þarna væri mannval gott í heillandi húsakynnum frá tíð fransks ræðismanns, laðaðist heiðursgesturinn ekki að neinum eins og brúna, reykvíska heimiliskettinum.

Svo var mál með vexti, að breska ráðskonan hafði beðið eina af vinnustúlkum sínum að útvega sér kött til að geta skapað heimilislegt andrúmsloft í Höfða. Engin vandkvæði voru á því, en nokkru síðar hafði kötturinn virst eiga erfitt með að hreyfa sig og fór ráðskonan þá með hann til dýralæknis. Varð úr að hann skar kisu upp við kviðsliti. Þetta spurðist út í Reykjavík og þótti með ólíkindum að hefðarfrúin hefði lagt á sig kostnað og fyrirhöfn við að halda lífi í kattarskinni þessu.

En nú sannaðist að þessi afstaða bæjarbúa sýndi aðeins skammsýni og fordóma. Dýrið áttaði sig samstundis á því að í húsið væri kominn einn mesti kattavinur sem fyrirfannst og stökk beint upp í fangið á honum í setustofunni. Sat brúna kisa síðan sæl í kjöltu forsætisráðherrans, sem gældi við hana og virtist engu minna sæll en hún. En þar kom að Churchill varð að sinna einhverjum manneskjum og loks hraðaði hann sér út í bíl ásamt sendiherranum. En ekki var hann fyrr stiginn inn í bílinn en hann vatt sér út úr honum aftur. Sendiherrann spurði, hvað væri á seyði. „Ég verð að kveðja köttinn,“ svaraði forsætisráðherrann að bragði og hvarf inn í húsið.

Churchill skoðar Reykjavíkurflugvöll

Að þessari kveðjuathöfn lokinni, var ekið niður í Vatnsmýri til að skoða flugvöllinn, sem Bretar höfðu lokið við að leggja þar í júní með geysilegri fyrirhöfn og fjárútgjöldum. Churchill hafði sjálfur rekið á eftir verkinu enda fullviss um að þessi fyrsti fullburða flugvöllur landsins gæti ásamt flughöfn á Skerjafirði komið að miklu gagni, þegar orrustan um Atlantshaf færðist í aukana þá um vorið. Þetta hafði gengið eftir og nú vildi hann líta mannvirkið mikla, sem mörg hundruð hermanna og íslenskra verkamanna höfðu keppst við að ljúka að mestu með handverkfærum einum saman. 

Svo virðist sem engin fullmótuð dagskrá hafi legið fyrir um Íslandsheimsóknina vegna leyndarinnar, sem yfir henni hvíldi. Churchill ákvað það sjálfur hvað hann vildi sjá og mátti það heita dæmigert fyrir gamla ævintýramanninn að láta ekki embættismenn ráða ferðum sínum. Í Höfða virðist hann hafa fengið hugmyndina um að skoða Reykjavíkurflugvöll, því að sagt er að foringja í flugliðabúðum á vellinum hafi legið við aðsvifi, þegar honum var skyndilega tilkynnt að von væri á Churchill eftir stutta stund.

Flugliðarnir þustu hins vegar úr bröggum sínum glaðir og reifir og fylktu sér í raðir beggja vegna vegarins inn í bæinn. En nú gerðist það sama, eins og á ölllum áningastöðum Churchills, bið varð á því að hann birtist. En flugliðarnir styttu sér stundir við fagna ákaft öllum bílum, sem um veginn óku, íslenskum sem breskum. Mestur var fögnuðurinn, þegar íslensk brúður með slæðu og skart átti þar leið um ásamt brúðguma sínum. Ætla má að seint hafi þau gleymt þeim konunglegu móttökum, sem þau hlutu frá liðsmönnum Royal Air Force á þessu bjarta dægri.

En loks birtist „good old Winnie“ hýr og kátur eftir veisluna í Höfða og kynnin af brúnu kisunni. Hann deildi geði við flugliðanna á sama hátt og hergöngumenn á Suðurlandsbraut, sem allir héldu því fram að hann hefði að minnsta kosti horfst í augu við þá. Margir þessara ungu glaðværu manna áttu eftir að fórna lífi sínu í baráttunni, sem framundan var. En víst er að fjárfesting Breta í Vatnsmýrinni, RAF Station Reykjavík, átti eftir að margborga sig. Sprengjuflugvélarnar sem þaðan flugu til verndar skipalestum á Atlantshafi áttu drjúgan þátt í sigri í orrustunni um Atlantshaf 1943. Fáir áttu meira undir þeim sigri en íslenska eyþjóðin, sem varð fyrir sárum mannskaða af hendi sæúlfa Hitlers.

Churchill finnur upp hitaveituna

Churchill hafði þegið boð um að heimsækja Harry S. Curtis hershöfðingja, yfirmann breska setuliðsins, í höfuðstöðvum hans í Árbæ nærri Elliðaám. Áður ætlaði hann þó að koma við á jarðhitasvæðinu við Reyki í Mosfellssveit, en í grenndinni var ein stærsta braggabyggð landsins. Þar höfðu bandarískir landgönguliðar nú einnig hreiðrað um sig með hjálp breskra vopnabræðra, sem höfðu fagnað þeim innilega.

Við Reyki var stunduð ylrækt í gróðurhúsum og þar hafði verið borað fyrir vatni í væntanlega hitaveitu Reykjavíkur, sem átti sér enga tæknilega hliðstæðu í veröldinni. Ætlunin hafði verið að ljúka framkvæmdum við veituna ári fyrr. Stálleiðslurnar höfðu hins vegar ekki komist lengra en í lestir gamla flaggskipsins, Gullfoss, sem Þjóðverjar kyrrsettu, þegar þeir hernámu Kaupmannahöfn í apríl 1940. Reynt hafði verið að útvega nýtt efni í hitaveituna í Bretlandi en ekki tekist, því að vígbúnaðarframleiðslan varð að ganga fyrir um alla málma.

Morgunblaðið lýsti heimsókn Churchills að Reykjum svo:

„Staðnæmdist hann stundarkorn við fyrstu hveralækina til þess eins og að fullvissa sig um, hve hiti er þarna mikill. Hann deyf hendi niður að hinu sjóðheita vatni hvað eftir annað og litaðist síðan um til að fá yfirlit yfir, hve mikið kynni að vera af þessum jarðarauð. Hann hafði orð á því, hve mikils mætti vænta í framtíðinni af þessum sístreymandi hita, gekk síðan í gróðurhúsin og sá, hvað þar er að sjá. Fór hann m.a. inn í eitt húsið, sem er alþakið vínberjum, las nokkur ber í lófa sinn og útbýtti síðan til þeirra er úti fyrir voru. Hann undraðist þetta, hafði gaman af því og vildi sýnilega vita sem gerst hvernig hitinn væri hagnýttur. Var honum skýrt frá að fyrst af öllu ætti að leiða hita héðan til bæjarins. Hafði hann fengið vitneskju um það áður og hvernig því máli væri komið.“

Hveravatnið reyndist við skoðun Churchills vera heitt.
Hveravatnið reyndist við skoðun Churchills vera heitt. mbl.is

Þessa stund meðan Mr. Churchill gekk um þarna á Reykjum kom það greinilega í ljós, hve alþýðlegur maður hann er í framgöngu. Þegar ungar stúlkur komu og báðu hann að rita nafn sitt í eiginhandarnafnabækur sínar var það sjálfsagður hlutur. Og þegar verkamaður, sem var að verða of seinn, kom með myndavél sína, sneri Mr. Churchill við, svo verkamaðurinn fengi mynd sína.

En skiptum Churchills við stúlkurnar þrjár var ekki lokið. Þær bundu forsætisráðherranum fagran og stóran vönd úr nellikum (drottningarblómum) og færðu honum í þakklætisskyni. Einn fylgdarmanna hans segir að Churchill hafi orðið „barnslega“ glaður og upp með sér af þessari gjöf frá íslensku blómarósunum. 

Síðar átti Churchill eftir að víkja að því í stríðssögu sinni (sem hann hlaut fyrir nóbelsverðlaun í bókmenntum),  þegar hann skoðaði „hverina dásamlegu“ og gróðurhúsin að Reykjum. „Ég hugsaði óðar að þá ætti einnig að nota til að hita Reykjavík og reyndi að greiða fyrir þessari áætlun jafnvel á meðan stríðinu stóð. Það gleður mig að nú hefur henni verið hrint í framkvæmd.“ (The Grand Alliance, bls. 449.)

Þannig eignaði heimsveldisleiðtoginn sér heiðurinn af hitaveitunni, svo hlálegt sem það er. Hann var farinn að nálgast áttrætt, þegar hér var komið, var dagdrykkjumaður og virðist hafa aukið á drykkjuna eftir að honum var steypt af valdastóli í þingkosningunum í kjölfar sigursins yfir Þýskalandi 1945. Eðlilegast virðist því að skýra ummæli hans í ljósi vímu, elli og karlagrobbs. Íslendingar tóku þessu af hæfilegri alvöru og hentu gaman að uppfinningu hans á nýtingu jarðhita.

Annað mál er það, að Howard Smith sendiherra reyndi enn að útvega Íslendingum efni til hitaveitunnar eftir heimkomu Churchills, en hafði ekki erindi sem erfiði. Jafnvel þótt forsætisráðherrann hefði velþóknun á framkvæmdinni og vissi að hún myndi spara Bretum kolaútflutning til Íslands, varð vígbúnaðurinn áfram að hafa forgang. Það var því ekki fyrr en 1943 að Thor Thors, sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, tókst að útvega þar efnið sem upp á vantaði til að ljúka við þessa langþráðu og byltingarkenndu framkvæmd. 

Með stúlku sem fékk eiginhandaráritun Churchills í bók sína.
Með stúlku sem fékk eiginhandaráritun Churchills í bók sína. mbl.is

One for the road (hestaskálin)

Á meðan Churchill reikaði á milli heitra linda og hreifst af gróðurhúsameyjum að Reykjum, tók setuliðsforingja í Árbæ að lengja eftir forsætisráðherranum. Þar kom að hann renndi loks  í hlað við braggaþyrpingu þeirra síðdegis. Foringjum var farið að þyrsta í ómissandi enskt síðdegiste með tilheyrandi bakkelsi. Allt var fyrir löngu til reiðu og var gestum boðið til sætis í félagsheimili og matstofu foringjanna (Officers’ Mess). 

Á meðal þeirra var  sá mæti maður, Alan Boucher, síðar prófessor í ensku í Háskóla Íslands. Hann minntist þess að hafa horft á Churchill koma sér makindalega fyrir í stól með vindilinn í munninum. En þegar einhver spurði (væntanlega gestgjafinn, Curtis hershöfðingi) hvort hann mætti ekki bjóða forsætisráðherranum upp á te, tók hann því víðs fjarri og spurði, hvort „messinn“ lúrði ekki á einhverju sterkara? Hann vildi gjarnan þiggja einn vænan og átti þá vafalaust við daglegan eftirlætisdrykk sinn, skoskt viskí. Ekki stóð á því, í Headquarters Alabaster Force (dulnefni setuliðsins) skorti aldrei viskí og gin, hvernig sem allt valt í styrjöldinni. Veigar voru bornar fram í snatri og síðan setið að spjalli í góðu yfirlæti þar í bragganum.

En nú leið að brottför, heiðursgesturinn kvaddi setuliðsforingjana og var ekið til Reykjavíkurhafnar ásamt fylgdarliðinu.  Allnokkru fyrr hafði fjöldi manns safnast við höfnina, sýnu fleiri en um morguninn. Beið fólk heiðursgestsins með nokkurri óþreyju, því að hann kom ekki fyrir áætlaðan brottfarartíma, kl. 5. Stuttu síðar kom hins vegar Hermann Jónasson forsætisráðherra niður á bryggju í fylgd með æðsta yfirmanni breska landhersins. Var þess þá ekki langt að bíða að Churchill stigi út úr bifreið ofarlega á bryggjunni og gengi niður eftir. Að baki honum gekk lífvörðurinn, Inspector Thompson, en ekki virtist hann beinlínis líklegur til að geta veitt forsætisráðherranum mikla vörn, ef á reyndi. Menn úr föruneyti Churchills, sem ekki höfðu farið að Reykjum, tóku eftir þessu og undruðust að sjá að lífvörðurinn átti fullt í fangi með bera risastóran nellikuvönd til skips „kostulega líkur brúðguma á leið til vígslu!“ 

Tíminn, málgagn Framsóknarflokksins, sagði mannfjöldann hafa hyllt Churchill ákaft og hann brosað til hægri og vinstri. „Þegar hann sá að Hermann Jónasson beið hans, gekk hann til móts við hann og heilsaði honum og þakkaði fyrir þá hugulsemi að koma og kveðja sig. Gengu þeir síðan saman meðfram hermannaröðunum á bryggjunni og niður að landgöngubrúnni.“

Á meðan ómuðu tregafullir tónar frá sekkjapípum Skota yfir nágrennið og höfnina, þar sem þeir stóðu hnarreistir í pilsum sínum með skotthúfur á höfði. Eftir nokkur orðaskipti þakkaði Hermann Churchill fyrir heimsóknina, „en Mr. Churchill lét í ljós ánægju sína yfir því að hafa komið til Íslands.“ Lokaorð hans til Íslendinga voru að sögn Morgunblaðsins: „Hamingjan fylgi ykkur, Guð blessi ykkur öll.“

Síðan steig hann um borð í kanadíska tundurspillinn, sem brátt seig frá bryggjunni. Churchill stóð við borðstokkinn með vindilinn í munninum, sneri í átt til mannfjöldans og myndaði stafinn V með fingrunum. Fólkið fagnaði og skipin á troðfullri höfninni tóku að blása með eimpípum sínum þrjú stutt hljóð og eitt langt, svo að undir tók í bænum. Þeir, sem þekktu til mors-stafrófsins, kenndu þar stafinn V. 

Churchill sýnir sigurmerkið fræga.
Churchill sýnir sigurmerkið fræga. mbl.is

En dagskrá forsætisráðherrans var ekki lokið. Þegar tundurspillirinn hafði siglt í gegnum hliðið á tundurduflabelti og kafbátaneti á Hvalfirði og lagst á flotlægið við Hvítanes, var Churchill ferjaður yfir í orrustuskipið mikla Ramillies, þar sem hann flutti ræðu, sem virðist hafa verið endurvarpað, þannig að áhafnir annarra herskipa á læginu og hermenn í landi gætu hlýtt á hana.

Sagt er forsætisráðherrann hafi verið orðinn nokkuð valtur á fótum, þegar hér var komið, en vafasamt er að það hafi stafað af fyrrnefndum veigum. Hann hafði tognað á fæti við bröltið á milli skipa á Atlantshafsfundinum og það var dauðasynd í hans augum eins og flestra enskra aðalsmanna að láta sjá á sér vín. „Ég hef fengið meira út úr alkóhóli en alkólhól út úr mér“, eru á meðal frægra ummæla hans. Ræðusnilld hans virðist líka hafa verið söm við sig. Hermaður einn, sem á ræðuna hlýddi, sagðist við ævilok ætíð minnast þess, hve áhrifamikil hún var. Enn var dagskráin þó ekki tæmd. Churchill spjallaði við breska og bandaríska sjóliða, þar á meðal af nýjum tundurspilli HMS Churchill, og hvatti þá til dáða.

Úthaldið var undravert. Tíu árum yngri maður, Sir Alexander ráðuneytisstjóri, var að þrotum kominn við brottför frá Reykjavík. Aðaláreynsla hans hafði þó falist í því að standa á tveim fótum og bíða eftir því að Churchill léti staðar numið og sneri sér að einum dagskrárlið eftir öðrum!

Lagt í haf

Klukkan 8.30 um kvöldið öslaði tröllvaxinn farkostur forsætisráðherrans, Prince of Wales, síðan út úr Hvalfirði á heimleið. Tæplega fjórum mánuðum síðar lá þetta brynbákn, sem skipst hafði á skotum við Bismarck  suðvestur af Íslandi, á mararbotni út af Malakkaskaga eftir árásir japanskra flugvéla. Rösklega 300 áhafnarmenn týndu lífi, þar á meðal skipherrann. Völt var stríðsgæfan.

Á brottfararkvöldi snæddi Churchill með fylgdarliði sínu og yfirmönnum á Prince of Wales. Ekki brást að hann bauð þeim að venju til kvikmyndasýningar með sér. Sýnd var ný Hollywood-skopmynd, Caught in the Draft, með tilvonandi Íslandsfara í aðalhlutverki, Bob Hope.

Það var farið að rökkva við suðurströnd Íslands, þegar forsætisráðherrann gekk loks til hvílu „eftir þessa löngu og þreytandi þrekraun“, eins og segir í stríðssögu hans. En það var þakklátur og ánægður maður, sem sofnaði út af þetta ágústkvöld. Honum hafði þegar verið sagt frá því, sem öll dagblöð Reykjavíkur voru sammála um, að sjaldan hefðu menn séð og heyrt önnur eins fagnaðarlæti í Reykjavíkurbæ og við heimsókn hans.

HMS Prince of Wales, farskjóti Churchills, við höfn í Singapúr …
HMS Prince of Wales, farskjóti Churchills, við höfn í Singapúr árið 1941.

Söguleg heimsókn, sögulegur lærdómur

Nú brá svo við, að  landsmenn voru hér að taka á móti leiðtoga heimsveldis, sem hernumið hafði Ísland ári fyrr gegn formlegum mótmælum ríkisstjórnarinnar á grundvelli ,,ævarandi hlutleysis“. Í landinu sat um 30.000 manna her þessa heimsveldis, sem svaraði til fjórðungs af tölu landsmanna og slagaði hátt upp í tölu allra Reykvíkinga.

En íslenska þjóðin hafði í raun aldrei verið hlutlaus í hjarta sínu. Þorri Íslendinga hafði frá upphafi stutt málstað lýðræðisríkjanna í styrjöldinni. Því höfðu þeir sætt sig við hernám Breta og ríkisstjórnin unnið með hernámsliðinu við að koma upp landvörnum gegn ógninni af nasismanum. Það var þessi afstaða hins þögla meirihluta, sem fengið hafði útrás við komu Churchills. Hann hafði haft vit og hæfileika til að taka í hina útréttu hönd Íslendinga á sinn létta og hæverska hátt, sem einkenndi alla Íslandsdvöl hans að mati helstu dagblaða. Þeim kom líka saman um það að aldrei hefði valdameiri og merkari stjórnmálaleiðtogi sótt Ísland heim og aldrei hefði nokkrum slíkum manni verið tekið af öðrum eins fögnuði og vinfengi og Winston Spencer Churchill.

Eftir hrakfarir Bandamanna á meginlandinu 1940 hafði fólk smám saman skynjað að örlög lýðræðisríkjanna væru samofin. Íslendingar gætu aldrei átt sér neina framtíð fyrir sér sem frjáls og fullvalda lýðræðisþjóð, ef vargarnir tveir, Hitler og Stalín, einræðisherra Sovétríkjanna, skiptu með sér Evrópu eða drottnuðu yfir álfunni hvor um sig. Á myrkustu dögum styrjaldarinnar, þegar meginlandið allt lá undir oki og morðæði einræðisríkjanna, og Bretar og samveldisþjóðir þeirra stóðu einar gegn ægivaldinu, hafði sú hugsun kviknað hjá „hlutlausri“ smáþjóðinni að sameinaðir stöndum vér, en sundraðir föllum vér. 

Það var sá lærdómur, sem stríðsárakynslóðin tók með sér inn í tíma Kalda stríðsins að ófriðnum loknum. Hún vildi ekki aftur þurfa að vakna upp að morgni í varnarlausu landi, eins og örlagadaginn 10. maí, líta ókunna bryndreka út á Reykjavíkurhöfn, og spyrja í angist: „Hverjir eru komnir? Bretar eða Þjóðverjar? Þess vegna höfðu Íslendingar fagnað „hernámsstjóranum“ Churchill svo ákaft 16. ágúst ári síðar og þess vegna kusu þeir að halda varnar- og efnhagstengslum sínum við Atlantshafsveldin að hörmungum styrjaldarinnar loknum. Einn fyrir alla og allir fyrir einn. Samstaða lýðræðisríkjanna í Evrópu og Norður-Ameríku væri öflugasta tryggingin fyrir friði og hagsæld í heiminum. Friði þar sem smáþjóðunum væri í senn tryggt frelsi, öryggi og mannréttindi. Ekki verður séð að neitt það hafi gerst á 21. öld er haggað fær þeirri ályktun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert