Hafa mokað upp þremur tonnum

Algengt er að fjölskyldur komi saman að Löðmundarvatni yfir helgi …
Algengt er að fjölskyldur komi saman að Löðmundarvatni yfir helgi og taki þátt í grisjun vatnsins. Þannig voru til dæmis um 30 manns við vatnið um síðustu helgi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við höfum verið stórtæk í aflabrögðum þarna og aflinn er á bilinu 100-200 kíló yfir helgi,“ segir Hjörtur Oddsson, formaður veiðifélagsins Ármanna.

Ármenn hafa síðustu þrjú ár unnið að grisjun Löðmundarvatns að Fjallabaki. Veiðifélagið gekk frá samningi þess efnis við Veiðifélag Landmannaafréttar og fer grisjunin fram undir eftirliti fiskifræðinga Hafrannsóknastofnunar á Selfossi. Allur afli er flokkaður og skráður og er annaðhvort nýttur til manneldis eða fóðurbætis fyrir skepnur.

Ármenn leggja 12-16 net á Löðmundarvatni hverju sinni. Hér er …
Ármenn leggja 12-16 net á Löðmundarvatni hverju sinni. Hér er verið að vitja netanna á dögunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gott aðgengi og veðursælt

Hjörtur segir í samtali við Morgunblaðið að vötnin að Fjallabaki séu mörg hver góð veiðivötn. Ýmist hafi verið sleppt urriða eða bleikju í þau. Þannig hefur Frostastaðavatn verið vinsælt til bleikjuveiða en er nú orðið ofsetið að sögn Hjartar. Löðmundarvatn er minnsta vatnið á svæðinu og hefur ýmsa kosti.

„Það kom upp sú hugmynd fyrir fjórum árum að leggjast í átak til að gera þetta vatn veiðivænna fyrir fólk. Þarna er gott aðgengi og veðursælt,“ segir Hjörtur.

Veiðifélagið Ármenn var stofnað árið 1973 og veiða félagsmenn aðeins …
Veiðifélagið Ármenn var stofnað árið 1973 og veiða félagsmenn aðeins á flugu. Hér gera Hjörtur og félagar að aflanum.

Hann segir að árið 2019 hafi 1,3 tonn verið veidd í vatninu. Minna var veitt í fyrra, eða um 700 kíló, en þá kom upp pest auk þess sem það voraði seint og haustaði snemma. Í ár hafa þegar um 900 kíló verið veidd.

„Við förum um helgar og leggjum net en þess á milli veiðum við í vötnunum í kring. Mörgum finnst þetta skemmtileg iðja og koma oft. Um síðustu helgi voru um sex fjölskyldur við veiðar, örugglega um þrjátíu manns,“ segir Hjörtur.

Grisjunin ber þegar árangur

„Við leggjum 12-16 net hverju sinni. Möskvastærðin er lítil svo við fáum litla fiska, þeir eru kannski bara 100 grömm. Við opnum fiskinn og söltum hann í ker og hann er svo notaður sem fóðurbætir í Landsveitinni. Okkur þykir þessi grisjun þegar vera farin að bera árangur. Fiskurinn virðist betur haldinn svo við erum greinilega að gera eitthvað rétt.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »