Segir borgina enn flækta í lakinu

Mikill kurr er meðal foreldra og starfsfólks Fossvogsskóla yfir því …
Mikill kurr er meðal foreldra og starfsfólks Fossvogsskóla yfir því að enn ríki óvissa um tilhögun skólahalds næstu vikurnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það hefur margsýnt sig á þessum þremur árum að borgin var tekin í rúminu í þessum málum og því miður virðist hún enn þá vera flækt í lakinu,“ segir Karl Óskar Þráinsson, formaður foreldrafélags Fossvogsskóla um stöðuna sem nemendur, foreldrar og starfsfólk standa nú frammi fyrir vegna framkvæmda á húsnæði skólans.

Reykjavíkurborg sendi foreldrum barnanna í ofangreindum árgöngum skoðanakönnun í dag þar sem þeir eru beðnir að velja milli þriggja valkosta fyrir tilhögun skólastarfsins fyrstu vikur skólaársins og hafa þeir til hádegis á morgun til þess að svara könnuninni.

Karl gagnrýnir framkvæmd könnunarinnar og segir hana bæði hafa borist seint og illa.

„Þegar þessi skoðanakönnun var kynnt fyrir foreldrum og starfsfólki vorum við efins um að þetta væri besta leiðin til að taka upplýsta ákvörðun og hvort að könnunin væri aðferðafræðilega rétt framkvæmd,“ segir hann. „Þarna virðist hafa verið kastað fram þremur valkostum án neinnar útskýringar á því hvað í þeim felst eða hverjir kostir og gallar hverrar tillögu eru. Þannig það er erfitt fyrir foreldra að taka upplýsta afstöðu.“

Á ábyrgð borgarinnar hvernig í pottinn er búið

Þá segir hann Reykjavíkurborg hafa dregið lappirnar í máli Fossvogsskóla og að óásættanlegt sé að ábyrgðin hafi verið færð á hendur foreldra og starfsfólks skólans að kjósa um næstu skref með svo stuttum fyrirvara.

„Þessi tímaþröng er gröf sem borgin gróf sér sjálf með framkomu sinni við skólasamfélagið og hve þétt hún hélt að sér spilunum fram á þennan dag. Þetta er algerlega á ábyrgð skólayfirvalda og þeirra sem að stjórna borginni hvernig í pottinn er búið núna. Það er þeim til skammar að nú skuli fórna enn einum vetri barnanna í vandræðagang fullorðna fólksins hjá borginni.

Þessi skoðanakönnun lítur út fyrir að vera aumt yfirklór þar sem verið er að reyna færa ábyrgð ákvarðanatöku yfir á þjónustuþegana þegar skóla- og frístundsvið hlýtur að taka endanlega ákvörðun sjálft byggða á faglegum forsendum um það hvar skólahald verður haldið. Þar skiptir vilji kennara gríðarlega miklu máli, hvar þeir vilja kenna og starfa því á þeirra vinnu byggir nám okkar barna, ekki á músasmelli foreldra seint á föstudegi,“ segir Karl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert