ON segir KNÚ byggja á „algjörlega óraunhæfu mati“

Orka náttúrunnar er dótturfyrirtæki Orkuveitunnar.
Orka náttúrunnar er dótturfyrirtæki Orkuveitunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Orka náttúrunnar segir ógildingu Kærunefndar útboðsmála á samningi ON og Reykjavíkur byggða á „algjörlega óraunhæfu mati á aðstæðum“ í stefnu sem fékk flýtimeðferð í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Í henni krefst ON ógildingar úrskurðar kærunefndar útboðsmála sem ógilti samning ON við Reykjavíkurborg um rekstur götuhleðslustöðva. 

Segja kærufrestinn hafa verið liðinn

Fyrsti liður stefnunnar snýr að fresti og málatilbúnaði kærunnar. ON metur það svo að kærufresturinn hafi verið löngu liðinn þegar Ísorka sendi erindið á úrskurðarnefndina og krafðist ógildingar hans, og hins vegar að kærunefndin hafi lagað málatilbúnað Ísorku en með því hefði nefndin gengið út fyrir valdsvið sitt. 

Ofmeta stórlega sölu rafmagns

Stefnan byggir í öðru lagi á því að hann hafi verið byggður á röngum og ófullnægjandi forsendum þar sem áætluð velta ON af hleðslustöðvunum hafi verið stórlega ofmetinn. 

Nefndin miðaði við að hver stöð selji rúmlega 49 kílóvattstundir á hverjum degi og myndi þannig skila ON 981 krónu í tekjur í dag sem síðan var margfaldað með fjölda stöðvanna út tímabilið sem samningurinn tók til. Við þá tölu bættist tekjur vegna stæðagjalds sem nemur 2 krónum á mínútu, margfaldað með fjölda stæða í átta ár. 

Reikningsforsendur standi ekki

Þannig hafi nefndin reiknað út veltuna 625.661.806 án virðisaukaskatts en ON telur reikningslegar forsendur samningsins ekki standast. Sú fjárhæð og aðrir þættir í samningnum var því talin fara umfram viðmiðunarfjárhæð vegna útboðsskyldu á Evrópska efnahagssvæðisins.

ON heldur því hins vegar fram að nýtingin væri töluvert minni en 49 kílóvatt stundir á hverja stöð og upphæðin nær 13,7 kílóvattstundum á degi hverjum sem myndi lækka heildarveltuna töluvert.

Því sé gert ráð fyrir allt of mikilli notkun auk þess sem kærunefnd miði við rangt tímagjald, 2 krónur í stað 0,46 sem er gjaldið samkvæmt verðskrá. ON segir það „algjörlega óljóst með hvaða hætti fjórföld sú upphæð er lögð til grundvallar í útreikningum nefndarinnar.“

Stefna ON fékk flýtimeðferð hjá héraðsdómstól Reykjavíkur svo niðurstöðu má vænta fyrr en síðar.

mbl.is