ON skýtur niðurstöðu kærunefndar til dómstóla

Hleðslustöð ON við Laugardalslaug.
Hleðslustöð ON við Laugardalslaug. Ljósmynd/Orka náttúrunnar

Orka náttúrunnar (ON) freistar þess nú að fá niðurstöðu kærunefndar útboðsmála fellda úr gildi og opna á ný 156 götuhleðslur fyrirtækisins fyrir rafbíla sem voru í notkun víðsvegar um Reykjavík. ON hefur skotið niðurstöðu kærunefndar útboðsmála til dómstóla. 

Í tilkynningu frá ON segir að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi fallist á flýtimeðferð málsins, sem þingfest verður næsta mánudag.

Hleðslustöðvarnar 156 hafa staðið ónothæfar síðan 25. júní þar sem kærunefnd útboðsmála ógilti samning ON við Reykjavíkurborg. Nefndin hafnaði svo beiðni Reykjavíkurborgar um frestun réttaráhrifa úrskurðarins. Nefndin segir að það varði ekki almannahagsmuni að kveikt yrði aftur á hleðslustöðvunum með frestur réttaráhrifa.

Enginn sigurvegari

Forstöðumaður fyrirtækjamarkaða ON segir að enginn sé sigurvegari í því máli sem upp er komið, sérstaklega ekki rafbílaeigendur og loftslagið. Hann segir að ON muni gera allt til að komast út úr þessari stöðu. 

„Sú staða sem upp kom eftir niðurstöðu kærunefndarinnar var í senn flókin og kolómöguleg,“ er haft eftir Kristjáni Má Atlasyni, forstöðumanni fyrirtækjamarkaða ON, í tilkynningu fyrirtækisins.

„Það var enginn sigurvegari en öll töpuðu, ekki síst rafbílaeigendur og loftslagið. Við erum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma þessari þjónustu í gagnið á ný, enda sýndi sig að margir rafbílaeigendur, sem ekki eiga kost á að hlaða heima, treystu á þessa lausn þegar þeir keyptu sér rafmagnsbíl.

Við hjá Orku náttúrunnar erum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að komast út úr þessari ómögulegu stöðu sem nú er, enda eru orkuskipti í samgöngum fljótlegasta og mikilvægasta framlag okkar til loftslagsmála,“ er haft eftir Kristjáni.

mbl.is