Biðja ferðamenn að yfirgefa svæðið

Aurug Skaftá. Send hafa verið út textaskilaboð til fólks á …
Aurug Skaftá. Send hafa verið út textaskilaboð til fólks á svæðinu. mbl.is/Sigurður Bogi

Lögreglan á Suðurlandi hefur ákveðið að loka leiðum inn að Skaftá, þar sem búist er við að hlaup í ánni undan Vatnajökli muni aukast til muna á komandi klukkustundum.

Eftirfarandi leiðum verður lokað frá klukkan 19 í kvöld:

  1. Landmannalaugar inn á Fjallabak nyrðra, inn á F-208.
  2. Skaftártungnavegur, vegur 208, frá Búlandi.
  3. Inn á Álftavatnskrók á vegi F-210, inn á F-233.
  4. Vestan við vað yfir Hólmsár, gatnamót F-210 og F-232.

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að send hafi verið út textaskilaboð til fólks á svæðinu.

Brennisteinsvetni berst með vatninu

„Ferðamenn eru beðnir um yfirgefa svæðið. Fólk sem er vestan Hólaskjóls er beðið að rýma í átt að Landmannalaugum,“ segir í tilkynningunni.

Brennisteinsvetni berist með hlaupvatninu þegar það kemur undan jökli. Styrkur þess sé þá svo mikill að það geti skaðað slímhúð í augum og öndunarvegi.

Búast megi við að hlaupið nái hámarki við þjóðveginn á miðvikudaginn. Komi til þess að hringvegurinn lokist vegna vatnavaxta þá sé hjáleið um Meðallandið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert