Ætlaði að hita sviðakjamma á Arnarhóli

Slökkviliðið að störfum á Arnarhóli í gærkvöldi.
Slökkviliðið að störfum á Arnarhóli í gærkvöldi. Ljósmynd/Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins

Maður í annarlegu ástandi var handtekinn á Arnarhóli við styttuna af Ingólfi Arnarsyni á tólfta tímanum í gærkvöldi.

Hann var búinn að kveikja eld í ruslatunnu og ætlaði að hita sviðakjamma sinn. Ruslatunnan var aftur á móti bráðnuð og maturinn brunninn. 

Maðurinn var vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu staðfesti við mbl.is að farið hefði verið í útkall á Arnarhól og slökkt í ruslatunnu.

Laust fyrir klukkan 19 í gærkvöldi var tilkynnt um reiðhjólaslys í Mosfellsbæ. Kona hafði dottið af hjóli sínu og var með mikla verki í öxl eftir fallið.

Hún var flutt með sjúkrabifreið á bráðadeild til aðhlynningar.

Bifreið var stöðvuð um hálfsexleytið í gærkvöldi á Kjalarnesi. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar án gildra ökuréttinda. Hann framvísaði erlendu ökuskírteini sem er talið falsað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert