Drukku freyðivín úr skónum eftir gönguna

Prosecco freyðivín drukkið úr gönguskóm þeirra félaga eftir gönguna yfir …
Prosecco freyðivín drukkið úr gönguskóm þeirra félaga eftir gönguna yfir Ísland. Ljósmynd/Hrólfur Vilhjálmsson

„Stutta svarið er bara af því okkur langaði það. Það er erfitt að gefa ástæðu fyrir utan að manni finnst eins og maður þurfi að gera þetta. Þetta er eitthvað sem maður veit að maður myndi hafa gaman af og af hverju ekki bara að gera það. Þetta er ekki svo frábrugðið öðru sumarfríi ef þú spyrð mig,“ sagði Hrólfur Vilhjálmsson göngugarpur þegar blaðamaður spurði hann út í gönguna þvert yfir Ísland sem hann kláraði á dögunum ásamt föður sínum, Vilhjálmi Árnasyni, og Bandaríkjamanninum Richard Shenton.

Föt þurrkuð á miðri leið.
Föt þurrkuð á miðri leið. Ljósmynd/Hrólfur Vilhjálmsson

„Við löbbuðum bara frá austri til vesturs. Byrjuðum á Dalatanga, ætluðum svo að enda á Djúpalónssandi en lentum í smá veður veseni síðustu vikuna á Snæfellsnesi svo við enduðum á Öndverðarnesi í staðinn. Þetta tók fimm vikur.“

Sendingar af birgðum með ættingjum

Hrólfur segir ferðina hafa gengið vonum framar. Enginn slasaðist og var veðrið til friðar næstum alla gönguna. Leiðin var hlykkjótt en þegar á endastöð var komið höfðu félagarnir farið tæplega 1.100 kílómetra á tveimur jafn fljótum. Eftir að hafa gengið fyrir norðan Vatnajökul héldu þeir suður Sprengisand og inn á Fjallabak áður en gengið var norður í Kerlingarfjöll og Kjölur þaðan þveraður. Tóku þeir ákvörðun um að fara lengri leið til að virða betur fyrir sér hálendið og njóta náttúrufegurðar Íslands.

Að sögn Hrólfs var undirbúningurinn aðallega í formi skipulagningar og voru helstu áskoranirnar að plana leiðir og nálgast birgðir á borð við mat og hrein föt. Höfðu þremenningarnir meðferðis bakpoka og gistu þeir flestar nætur í tjaldi upp á hálendinu, milli þess sem þeir dvöldu í skálum.

Þremenningarnir þver á upp Snjódal.
Þremenningarnir þver á upp Snjódal. Ljósmynd/Hrólfur Vilhjálmsson

„Það er miklu erfiðra andlega heldur en líkamlega að ganga í svona langan tíma. Erfiðleikarnir sjálfir komu allir bara upp í tengslum við skipulagningu því það er svo mikið af óvissu þáttum. Hérna á Íslandi ertu aðallega utan stíga, þú þarft að búa til þína eigin leið þannig að undirbúningurinn er miklu meiri. Þú þarft að huga að svo miklu. Þú ert kannski að horfa á loft mynd af svæðinu og veist ekki hvort það er hraun þar, þá þarftu að breyta öllu planinu þegar þú ert kominn á staðinn. Það kom alveg nokkrum sinnum fyrir en við klúðruðum aldrei það miklu að við gátum ekki bjargað okkur.“

Sem betur fer búa göngugarparnir vel að og komu vinir og vandamenn reglulega með sendingar af birgðum og öðrum búnaði til þeirra, sem gerði ferðina töluvert auðveldari að sögn Hrólfs.

Gönguleið Hrólfs og félaga.
Gönguleið Hrólfs og félaga.

„Við keyrðum austur og skildum eftir fyrstu sendinguna í Óbyggðasetrinu. Svo fengum við frænda minn sem býr á Húsavík til að skutla sendingu númer tvö niður í Mývatn, sem var svo keyrt í Öskju og svo kom mamma keyrandi með birgðasendingar líka. Ég var náttúrulega að labba með pabba þannig að það var auðveldara að sannfæra hana,“ sagði Hrólfur og hló. „Ég þurfti nú reyndar ekki að selja þetta neitt rosalega mikið, ég held að flestir sem komu hafi haft mjög gaman af því að hitta okkur á þessum stöðum.“

Fóru 30 til 40 km á hverjum degi

Gangan yfir Ísland er ekki lengsta gangan hans Hrólfs en árið 2018 gekk hann yfir Bandaríkin, frá Kanada til Mexíkó, á 129 dögum. Kynntist hann þá samferðafélaga sínum Richard Shenton en síðan þá hafa þeir gengið hátt í fimm þúsund kílómetra saman.

Ferðin hérna heima var þó ögn frábrugðin því ferðalagi enda landslag Íslands og Bandaríkjanna að mörgu leyti gjör ólíkt. Höfðu þeir til að mynda ekki gert ráð fyrir hve hratt hafði hækkað í jökulánum á þessum tíma sumars og þurfti því að endurskipuleggja stóran hluta leiðarinnar.  

Að sögn Hrólfs gengu þremenningarnir á bilinu 30 til 45 kílómetra á hverjum degi. Réðst vegalengdin að miklu leyti út frá veðri, aðstæðum og líðan þeirra. „Undirlag skiptir líka ótrúlega miklu máli, ef þú ert að labba í hrauni eða mjúkum sandi ertu hægari, eðli málsins samkvæmt. Við miðuðum við að fara svona 30 kílómetra á dag, það er þægileg vegalengd. Suma daga fórum við þó alveg 45 til 50 kílómetra.“

Meiri upplifun að drekka úr skóm en glasi

Þegar á Öndverðarnes var komið, og ferðinni yfir Ísland lokið, var síðan gripið til gamallar skósopa-hefðar (e. Shoey), þar sem freyðivíni var hellt í gönguskó þeirra og sopi að sjálfsögðu tekinn.

Hvernig smakkast svo Prosecco úr skóm?

„Ég held að bragðið sé minnsta málið, þetta er stemningin. Það kjarnar líka bara hvað þessi ganga snýst um. Þetta er minna um lúxusinn og meira um upplifunina. Að drekka freyðivín úr gönguskóm sem þú ert búinn að labba ellefu hundruð kílómetra í er skemmtilegra en að drekka freyðivín úr glasi í veislu. Þó það bragðist ekki alltaf jafn vel þá myndi ég alltaf kjósa það ef ég fengi að velja á milli.“

Hér fyrir neðan má sjá myndband úr ferðinni sem Hrólfur tók saman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert