Minni líkur á að það flæði yfir þjóðveginn

Dregið hefur úr rennsli Skaftár.
Dregið hefur úr rennsli Skaftár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áfram dregur úr rennsli Skaftár að því er segir á vef Veðurstofu Íslands. Segir í tilkynningunni að á þessu stigi hafi því dregið úr líkum á því að hlaupvatn nái að flæða yfir þjóðveg 1.

Þó segir einnig að vatnshæð í Tungulæk sem kemur undan Eldhrauni fari þó enn hækkandi og því sé ekki hægt að útiloka að hlaupvatn nái upp á þjóðveginn.

Rennsli við Sveinstind hefur minnkað töluvert en það er komið niður fyrir 470 m3/sek en í gær var rennslið yfir 1.000 m3/sek. Rennsli við Eldvatn mælist nú um 370 m3/sek.

mbl.is