Vill að óheimilt verði að mismuna blóðgjöfum

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur sett fram drög að breytingu á reglugerð um söfnun, meðferð, varðveislu og dreifingu blóðs. Með breytingunni yrði m.a. samkynhneigðum karlmönnum leyft að gefa blóð.

Breytingin hefur í för með sér að því er bætt inn í reglugerðina að það sé óheimilt að mismuna blóðgjöfum á grundvelli ómálefnalegra sjónarmiða, svo sem kyns, kynhneigðar, uppruna eða stöðu að öðru leyti,“ segir í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.

Þá felur breytingin jafnframt í sér að kynhegðun veldur ekki lengur varanlegri frávísun blóðgjafar.  Í staðinn er kveðið á um að blóðgjafi megi ekki hafa stundað áhættusamt kynlíf í fjóra mánuði fyrir blóðgjöf.

Lögð er til skilgreining á því hvað telst vera áhættusamt kynlíf en í því felst að það sé kynlíf sem eykur verulega líkur á að alvarlegir smitsjúkdómar berist með blóði. 

mbl.is

Bloggað um fréttina