Lengsta goshlé frá upphafi

Eldgosið í Geldingadölum hefur nú legið í dvala í rúma …
Eldgosið í Geldingadölum hefur nú legið í dvala í rúma viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eldgosið í Geldingadölum hefur nú legið í dvala í rúma viku en óróavirkni hefur verið nánast engin frá því á fimmtudaginn í síðustu viku. Er þetta lengsta goshlé frá því að eldgosið hófst þann 19. mars, að sögn Bryndísar Ýrar Gísladóttur, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Sérfræðingar á Veðurstofunni telja þó of snemmt að ræða goslok. Gasstreymið sem hefur sést á vefmyndavélum bendir meðal annars til þess að eitthvað sé að gerast.

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, sagði í samtali við Morgunblaðið að afgösun úr gígnum bæri merki þess að kvika liggi tiltölulega grunnt. Það gæti þó verið einhver fyrirstaða sem kæmi í veg fyrir að hún næði til yfirborðs.

mbl.is