Ísland eykur framlag sitt til mannúðaraðstoðar

Guðlaugur Þór ávarpaði fundinn í gegnum fjarfundarbúnað.
Guðlaugur Þór ávarpaði fundinn í gegnum fjarfundarbúnað. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Utanríkisráðuneytið hefur heitið því að leggja til 25 milljónir króna til viðbótar í mannúðaraðstoð í Afganistan. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, greindi frá þessu á áheitaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í dag.

Þær 25 milljónir koma til viðbótar þeim 60 milljónum sem Ísland hafi í ágúst lofað til flóttamálastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðaráðs Rauða krossins. 

„Með þessu viljum við svara ákalli Sameinuðu þjóðanna um tafarlausan stuðning við afgönsku þjóðina, ekki síst til að tryggja virðingu fyrir alþjóðlegum mannréttindum og mannúðarlögum, óhindraðan aðgang mannúðarstofnana, og vernd afganskra borgara.

Síðast enn ekki síst verðum við standa vörð um réttindi kvenna og stúlkna í Afganistan og að tryggja að það sem hefur áunnist í þeirri baráttu glatist ekki. Veturinn er handan við hornið, og hann er afar harður í Afganistan. Það er því mikilvægt að bregðast hratt við,“ er haft eftir Guðlaugi í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.

mbl.is