Lentu í hrakningum á Fimmvörðuhálsi

Tveir göngumenn lentu í „dýrvitlausu“ veðri á göngu sinni um Fimmvörðuháls seinnipartinn í gær.

Að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Slysavarnafélagsins Landsbjargar, virtust þeir ekki hafa áttað sig á slæmri veðurspá og lentu í hrakningum ofarlega á hálsinum, skammt frá skálum sem þar eru.

Þeir voru orðnir kaldir og hraktir þegar þeir fundu skála, en komust ekki þangað inn. Mennirnir, sem voru erlendir ferðamenn, brutu sér þá leið inn í skálann sem varð til þess að annar þeirra hlaut ljótan skurð og kölluðu þeir í framhaldinu eftir aðstoð björgunarsveita.

Nokkrir hópar björgunarsveitarmanna voru sendir á vettvang. Þeir gengu frá skálanum, hlúðu að sárum mannsins og fluttu mennina til byggða. Voru þeir komnir niður um klukkan 21 í gærkvöldi.

Festu bílinn í aurbleytu

Björgunarsveitir voru einnig kallaðar út innarlega í Fljótshlíð, á leiðinni inn á Syðra-Fjallabak, seinnipartinn í gær. Þar hafði fólk fest bíl sinn í aurbleytu. Fólkið var sótt og lögreglan útvegaði því gistingu og húsaskjól. Bíllinn var skilinn eftir.

Að sögn Davíðs Más fóru björgunarsveitir ekki í fleiri útköll í gærkvöldi og í nótt þrátt fyrir slæmt veður víða um land.

Frá aðgerðunum á Fimmvörðuhálsi.
Frá aðgerðunum á Fimmvörðuhálsi. Ljósmynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg
mbl.is