Gígbarmurinn rís hæst í 334 metra hæð

Gígbarmurinn er orðinn ansi hár.
Gígbarmurinn er orðinn ansi hár. Kristinn Magnússon

Í staðinn fyrir að breiða mikið úr sér undanfarinn mánuð hefur hraunið í Geldingadölum hlaðið upp lítilli en frekar brattri dyngju. Gígbarmurinn á Fagradalsfjalli rís hæst í 334 metra hæð yfir sjó og aðeins vantar tæpa 20 metra upp á að hann nái sömu hæð og fjallið Stóri-Hrútur.

Þetta kemur fram á vef Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands.

Nýjustu mælingar sýna að meðaltal hraunrennslis síðustu 32 daga er 8,5 rúmmetrar á sekúndu. Um það bil helming tímans var gosið nokkuð kröftug en þess á milli lá það niðri. Meðalrennslið þegar það gaus úr gígnum gæti því hafa verið um tvöfalt meira.

Hraunið er nú 143 milljónir rúmmetra og 4,6 ferkílómetrar að flatarmáli. Á þessum mánuði sem liðinn er frá síðustu mælingu og fram að þeirri nýjustu 9. september, hefur hraun runnið í vestanverða Meradali, Syðri Meradal og norðurhluta Geldingadala og Nátthaga.  Flatarmálið hefur aukist sáralítið, enda hraunrennslið verið mest á yfirborðinu. Hraunin í hverri hrinu hafa því ekki náð út að jaðrinum á ofangreindum stöðum.

Frábrugðið öðrum gosum

Fram kemur að eldgosið sé að mörgu leyti frábrugðið öðrum gosum undanfarinna áratuga. Flest hafi þau átt upptök i kvikuhólfum undir megineldstöðvum þar sem þrýstingur í hólfinu og stærð þessi virðist ráða mestu um stærð og lengd goss. Í Fagradalsfjalli virðist aftur á móti aðstreymisæðin og eiginlegar hennar ráða mestu um kvikuflæðið.

„Hegðunin frá í lok júní er mjög athyglisverð.  Heldur dró úr fyrri hluta júlí en hraunflæðið jókst aftur samfara því að regla komst á kviðuvirknina um miðjan mánuðinn.  Frá lokum júlí hefur meðal hraunflæðið heldur minna en þegar mest var.  Engin leið er að spá fyrir um goslok út frá hegðuninni hingað til,“ segir á vefsíðunni.

mbl.is