Þreyttur á spillingunni

Mímir Kristjánsson skipar sæti Rauða flokksins á norska Stórþinginu.
Mímir Kristjánsson skipar sæti Rauða flokksins á norska Stórþinginu. Ljósmynd/Aðsend

Mímir Kristjánsson kveðst himinlifandi eftir úrslitin í gær þegar vinstri flokkarnir fóru með stórsigur í norsku þingkosningunum. Mímir, sem á íslenskan föður, skipar sæti vinstrisinnaða Rauða flokksins og er hann einn af átta flokksmönnum sem náðu kjöri á Stórþingið. Einungis einn komst á þing fyrir hönd flokksins í síðustu kosningum og því um stórt stökk að ræða.

Mímir segir niðurstöðurnar koma á óvænt þó flokksmenn hafi verið bjartsýnir enda hafi verið tími til kominn fyrir breytingar í norskum stjórnmálum.

 „Við fórum úr því að vera lítill flokkur á jaðrinum sem öllum er sama um, í að vera alvöru afl í norskum stjórnmálum. Þetta hafa verið sögulegar kosningar fyrir vinstrið í Noregi. [...] Ég held að þetta séu vinstrisinnuðust kosningar í Noregi frá seinni heimsstyrjöldinni.“

Ójöfnuður farið vaxandi

Aðspurður segir Mímir þetta stökk til vinstri æxlast af því að síðustu átta ár hafi hægri sinnuð ríkisstjórn setið við völdin í Noregi. Samhliða hafi ójöfnuður í samfélaginu farið vaxandi þar sem hinir ríku verða ríkari og fátækir verða fátækari.

„Noregur er ríkt land en á sama tíma hefur fátæk verið vaxandi vandamál. Bilið milli þeirra sem eru ríkir og fátækir er sífellt að stækka. Er þetta sérstaklega slæmt fyrir einstaklinga sem þurfa að reiða sig á velferðarbætur. Hefur ríkisstjórnin komið mjög illa fram við sjúklinga, öryrkja og aðra sem ekki geta unnið og þurfa að treysta á bætur.“

Ekki jafn spilltir og á Íslandi

Áður en Mímir fór í framboð starfaði hann sem blaðamaður og rithöfundur. Skrifaði hann fyrir norska stjórnmálablaðið Stéttabaráttan. Spurður hvers vegna hann hefði ákveðið að fara út í stjórnmál, segist Mímir hafa fengið nóg af spillingu og óstjórn pólitíkusa í landinu.

„Ég var orðinn þreyttur á hvernig stjórnmálamenn stjórnuðu landinu. Við erum ekki með jafn spillta stjórnmálamenn og á Íslandi en þetta er samt slæmt. Það eru alltaf einhverjir skandalar að koma upp. Ég er þreyttur á spillingunni. Ég sá að það þurfti breytingu og datt í hug að ég gæti orðið liðsinna.“

Velferðarmál og lýðræðislegt eignarhald náttúruauðlinda

Aðspurður segir Mímir helstu baráttumál sín sem þingmaður Rauða flokksins verða velferðarmál og lýðræðislegt eignarhald á norskum náttúruauðlindum.

„Eins og ég hef áður sagt þá er mér hugað um velferð þeirra sem þurfa að lifa á bótum, sem hefur verið komið illa fram við. Margir telja þetta fólk vera slæmt fólk og gera ráð fyrir að það sé latt og nenni ekki að vinna. Það er ekki satt. Fólk á velferðarbótum er oft veikt og vill vinna en hefur ekki tækifæri til þess.

Annað sem mér er umhugað um er að við verðum að vera með lýðræðislegt eignarhald á náttúruauðlindum okkar. Annars munu alþjóðleg fyrirtæki hrifsa til sín gróðann og Noregur verður skilinn eftir með nánast ekkert. Þetta hefur verið vandamál þegar kemur að vindorku. Vindtúrbínur hafa eyðilagt mikið af náttúru Noregs og eru yfirleitt í eigu þýskra og bandarískra stórfyrirtækja. Bæði orkan og peningurinn fer úr landinu á meðan við sitjum eftir og náttúran okkar eyðileggst. Þannig ég tel mikilvægt að halda lýðræðislegu eignarhaldi yfir náttúruauðlindunum.“

mbl.is