Hugmyndasöfnun í Kópavogsbæ hafin

Hugmyndasöfnun í samráðsverkefninu Okkar Kópavogur er hafin. Frá 15. september til 13. október verður hægt að setja inn hugmyndir á hugmyndavef verkefnisins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kópavogsbæ.

Á því tímabili verða einnig haldnir íbúafundir um allan bæ þar sem fólk getur komið sínum hugmyndum á framfæri. Íbúar eru hvattir til þess að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn og koma sínum hugmyndum á framfæri á hugmyndavef verkefnisins.

Meðal þess sem íbúar völdu í ársbyrjun 2020, síðast þegar kosið var í Okkar Kópavogi, eru æfingaaðstaða við Himnastigann sívinsæla, umferðaljós sem sýna mynd af kópnum sem Kópavogur er kenndur við, aparóla við Vatnsendaskóla og kaldur pottur í Salalaug.

Æfingaaðstaða við Himnastigann sem íbúar völdu í ársbyrjun 2020, síðast …
Æfingaaðstaða við Himnastigann sem íbúar völdu í ársbyrjun 2020, síðast þegar kosið var í Okkar Kópavogi.

Fjórða sinn sem Kópavogsbær stendur fyrir verkefninu

Þetta er í fjórða sinn sem Kópavogsbær stendur fyrir verkefninu, en því var fyrst hleypt af stokkunum vorið 2016. Íbúar Kópavogs hafa tekið verkefninu vel og fjöldamargar hugmyndir orðnar að veruleika.

Kosið verður milli hugmynda í ársbyrjun 2022 og hefjast framkvæmdir vorið 2022 og lýkur 2023. 200 milljónum verður varið til framkvæmda verkefna, skipt í hlutfalli við stærð bæjarhluta. Framkvæmdafé skiptist á tvö ár.

Nánari upplýsingar er hægt að finna hér.

mbl.is