Þyrla send til að sækja tvo göngumenn á Gónhól

Hér sjást göngumennirnir við hraunið.
Hér sjást göngumennirnir við hraunið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti fyrir skömmu á Gónhól við gosstöðvarnar í Geldingadölum, en tilgangurinn var bæði að fara með mannskap og tækjabúnað fyrir Veðurstofuna og að sækja tvo einstaklinga sem þangað höfðu komið sér, væntanlega með því að ganga yfir nýlegt hraun. Þetta staðfestir Sigurður Bergmann, vettvangsstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is.

Fyrr í dag ákvað Lögreglan á Suðurnesjum að rýma allt gossvæðið eftir að hraunstreymi tók að aukast verulega og rann hratt niður í Nátthaga. Myndaðist þá gríðarlegur hiti og mengun og óttast var um öryggi þeirra sem þar gætu verið á ferð.

Þyrlan á flugi yfir svæðinu.
Þyrlan á flugi yfir svæðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigurður segir að fljótlega þegar viðbragðsaðilar hafi verið komnir á staðinn hafi þeir náð utan um það sem var að gerast og í kjölfarið var ákveðið að falla frá allsherjar rýmingu, en þess í stað að beina fólki frá skarðinu og leiðigarðinum þar sem hraunið kom flæðandi niður. Því eru gönguleiðirnar bæði á Langahrygg og gönguleið B (sem liggur vestan við gosstöðvarnar) opnar fyrir gangandi umferð.

„Það hefur hægst aðeins á hraunstreyminu. Roðinn er ekki jafn áberandi og hraunið er farið að dökkna í skarðinu,“ segir Sigurður um hvernig þróunin hafi verið eftir hádegi. Hann segir flesta sem lögregla og björgunarfólk hafi haft afskipti af hafa virt tilmæli. Það eigi þó ekki við um alla og þannig hafi til að mynda 40 manna hópur ákveðið að halda upp í gilið umrædda þrátt fyrir tilmæli um annað.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Spurður hvort þar hafi verið um að ræða íslenskan hóp eða erlenda ferðamenn segir Sigurður að hann hafi ekki upplýsingar um það, en að alla jafna séu meira en 95% þeirra sem nú komi á gosstöðvarnar erlendir ferðamenn.

Hann ítrekar að við þessar aðstæður sé raunveruleg hætta á ferðum í skarðinu og þar sem hraunið flæddi um. Þannig hafi björgunarsveitarmenn sem komu á vettvang þurft að hörfa undan vegna hita og mengunar og að þeir hafi ekki treyst sér upp að leiðigörðunum. „Hitinn þá var gífurlegur og mengunin mikil.“

Eins og fyrr segir fór þyrla Landhelgisgæslunnar á svæðið fyrir skömmu síðan. Hafði þá sést til tveggja einstaklinga sem höfðu farið yfir í Gónhól, en til að komast þangað þarf að ganga yfir nýrunnið hraun. Sigurður segir slíkt alltaf háskaleik og að ákveðið hafi verið að hafa afskipti af þessum tveimur göngumönnum. 

Sigurður segir að viðbragðsaðilar verði áfram með mannskap á svæðinu og gefi út tilkynningar varðandi stöðuna við gosið eftir því sem mál þróist áfram.

Frá gosstöðvunum í dag.
Frá gosstöðvunum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert