Segja skattalækkanir síðustu átta ára nema 26%

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sjálfstæðisflokkurinn segir að hjón með regluleg meðallaun (670 þúsund krónur á mánuði) greiða nú tæplega 660 þúsund krónum minna í tekjuskatt samanlagt yfir árið, vegna skattalækanna frá árinu 2013.

Þannig séu skattagreiðslurnar sem um ræðir 26% lægri en þær væru ef áhrif skattalækkanna síðustu 8 ára nyti ekki við.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum, þar sem nýopnuð skattareiknivél er kynnt. Skattareiknivélina má finna á vefnum skattalaekkun.is.

Þar segir að eigi hjónin þrjú börn eru ráðstöfunartekjur þeirra alls rúmlega 820 þúsund krónum hærri á ári vegna skattalækkana og hækkunar barnabóta frá árinu 2013.

Skattareiknivél Sjálfstæðisflokksins.
Skattareiknivél Sjálfstæðisflokksins. Skjáskot/Sjálfstæðisflokkurinn

Tekjulágir fá hlutfallslega mest

Lækkun skatta og aukning í ráðstöfunartekjum er hlutfallslega mest hjá tekjulágum, en þannig eru skattgreiðslur hjóna á lágmarkslaunum (351 þúsund krónur á mánuði) ríflega 75% lægri vegna breytinganna, eins og segir í fréttatilkynningunni.

„Frá því að við settumst í ríkisstjórn á ný árið 2013 hafa skattar stöðugt lækkað og kjör heimilanna í landinu batnað. Með reiknivélinni getur fólk séð skýrt hvernig aðgerðir okkar snerta heimilisbókhaldið á eigin skinni. Það er mikilvægt að stjórnmálafólk líti ekki á skattkerfið sem tækifæri til að hækka álögur á fólk og fjármagna ævintýraleg útgjaldaloforð. Við í Sjálfstæðisflokknum ætlum að halda áfram á sömu braut lægri skatta og betri lífskjara á nýju kjörtímabili,“ er haft eftir Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, í fréttatilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert