Cornell háskóli og HR skrifa undir samstarf

Yfirlýsingin byggir á rammasamningi Cornell við GRP Ísland um víðtækt …
Yfirlýsingin byggir á rammasamningi Cornell við GRP Ísland um víðtækt samstarf á sviði sjálfbærni, orku, nýsköpunar og loftslagsmála. Ljósmynd/Aðsend

Fulltrúar Háskólans í Reykjavík og Cornell háskóla í Bandaríkjunum hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um samstarf í menntamálum og rannsóknum sem snúa að sjálfbærni, með áherslu á sjálfbæra orku. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Háskólanum í Reykjavík.

Yfirlýsingin byggir á rammasamningi Cornell við GRP Ísland um víðtækt samstarf á sviði sjálfbærni, orku, nýsköpunar og loftslagsmála sem starfað hefur verið eftir síðan 2016, og var endurnýjaður við sama tækifæri.

Samkvæmt viljayfirlýsingunni stefna HR og Cornell á að kennarar, vísindafólk og nemendur við háskólana hafi kost á að stunda kennslu, rannsóknir og nám við báða háskólana, sem gestakennarar, gestaprófessorar og skiptinemar og stefnt er að auknu samstarfi um fjölbreytt rannsóknaverkefni sem tengjast sjálfbærni, m.a. í gegnum Rannsóknarsetur HR um sjálfbæra þróun. Dr. Michal C. Moore gestaprófessor frá Cornell kennir við HR nú á haustönn.

Ljósmynd/Aðsend

Markmiðið að samstarfið leiði af sér aukin tækifæri fyrir íslenskt samfélag

Háskólinn í Reykjavík, GRP ehf., Íslenski Orkuklasinn, ásamt íslenskum stjórnvöldum hafa undanfarin ár átt í samstarfi við Cornell háskóla um þekkingaryfirfærslu í orkumálum og sjálfbærni, auk samstarfs í vísindarannsóknum og menntamálum.

Í tilkynningunni kemur fram að markmiðið sé að samstarfið leiði af sér aukin tækifæri í nýsköpun, grænum orkulausnum og verðmætaaukningu fyrir íslenskt samfélag. Fjöldi sendinefnda frá Cornell hefur sótt landið heim og unnið að verkefnum og greint tækifæri í grænni tækni á Íslandi, bæði í orkugeiranum og í sjávarútvegi.

Þá hefur Cornell, á grundvelli þess samstarfs og í samstarfi við alþjóðlega rannsóknarsjóði, hafið vinnu við úttekt á sjálfbærni Íslands í ákveðnum geirum, svo sem í orkuvinnslu og sjávarútvegi. Til stendur að umbreyta orkukerfum Cornell háskóla í Íþöku í New York að hluta til að íslenskri fyrirmynd, með því að nýta jarðvarma til að hita upp háskólasvæðið í stað gass og stefnt er að því að stofna miðstöð sjálfbærni á Íslandi í samstarfi við Cornell og tengda aðila.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert