Hraunið nær nú yfir 4,8 ferkílómetra

Hraunið teygir sig nú yfir 4,8 ferkílómetra og er 151 …
Hraunið teygir sig nú yfir 4,8 ferkílómetra og er 151 milljón rúmmetrar að stærð. mbl.is/Árni Sæberg

Hraunið sem rennur frá eldgosinu í Fagradalsfjalli mælist nú um 151 milljón rúmmetrar og er flatarmál þess 4,8 ferkílómetrar. Þetta sýna nýjustu mælingar sem Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands greinir frá.

Til samanburðar þá er Viðey um 1,7 ferkílómetrar að stærð. 

Flogið var yfir hraunið á föstudaginn með Hasselbald-myndavél og teknar loftmyndir til að meta stærð hraunsins. Gerð hafa verið landlíkön eftir þessum mælingum og þau borin saman við eldri gögn.

Mælingarnar sýna að meðaltal hraunrennslis yfir átta daga tímabil frá síðustu myndatöku var 11,8 rúmmetrar á sekúndu. Þetta er svipað hraunflæði og var lengst af í maí og júní og heldur meira en í ágúst. Hins vegar lá niðri frá 9.-11. september og því er meðalrennsli þeirra daga sem gosið var virkt, frá 11.-17. september, um 16 rúmmetrar á sekúndu.

Þróun gossins

Frá því að gosið tók sig upp aftur 11. september hefur hraun runnið í Geldingadali og niður í Nátthaga, en það rann einnig á tímabili til norðurs þar sem það fyllti upp í skika sem var á milli norðurgíganna sem voru virkir í apríl.

Hraunið hefur frá því júlí ekki náð að renna út að jaðri á þeim stöðum sem fjærstir eru gígnum. Segir í vef Jarðvísindastofnunar að það sé vegna þess að lengst af hafi gosið verið með lotubundna virkni. Verði hinsvegar löng tímabil af samfelldri virkni á komandi vikum megi búast við að hraun fari  að renna meira í innri rásum og gæti þá aftur náð að jaðrinum.

Þá segir að skyndilegt rennsli hraunsins fram Geldingadali og niður í Nátthaga sem átti sér stað 15. september hafi komið í stuttum púlsi. Með rennslinu úr hrauntjörninni hafi hraunsléttan vestan og norðvestan gígsins sigið um 3-4 metra. „Það er því svo að sjá að þar hafi safnast fyrir bráðið hraun undir storknu yfirborði í 3-4 daga, sem síðan braust fram,“ segir á vef stofnunarinnar.

Graf/Jarðvísindastofnun
mbl.is

Bloggað um fréttina