„Svartamyrkur, versnandi veður“

Björg­un­ar­bát­ur Slysa­varna­fé­lags­ins Lands­bjarg­ar var kallaður út um tíuleytið í gærkvöldi ásamt björg­un­ar­sveitar­fólki en Land­helg­is­gæsl­an stýrði aðgerðum á vett­vangi þar sem menn hafði rekið á sker við Akurey, með þeim afleiðingum að þeir lentu í sjónum.

Björgunarsveitin Ársæll greinir á Facebook-síðu sinni frá því sem gekk á. En vísað er í frásögn eins liðsmanns Ársæls sem var á vettvangi í gærkvöldi. Hann segir að útkallið með þeim eftirminnilegri og að það fari svo sannarlega í minningarbankann, ekki síst fyrir þær sakir að þetta hafi verið hans tvöhundraðasta útkall fyrir björgunarsveitina Ársæll.

Stökk úr matarboði vegna útkallsins

„Svartamyrkur, versnandi veður, staðsetning vituð en þarf samt að taka með fyrirvara. Þannig voru skilyrðin við upphaf útkalls gærkvöldsins, eins og svo oft áður. Verkefnið F1 – vélarvana bátur, en fyrir þá sem ekki þekkja til er F1 hæsti forgangur og þýðir einfaldlega mannslíf í húfi og þá setur maður ekkert fyrir sig að það sé matarboð í gangi heima hjá manni,“ segir Jón Helgi Elínar Kjartans, björgunarsveitarmaður fyrir björgunarsveitina Ársæll.

Jón lýsir því að einvala áhöfn hafi farið af stað á vel útbúnum lokuðum harðbotna báti og fljótlega komið auga á bátinn sem hafi verið í miklum grynningum á skerjóttu svæði. „Það var strax ljóst að það yrði ekkert grín að komast að þeim og hvað þá að koma línu í bátinn.“

„Þegar við nálguðumst bátinn sáum við að þrír af fjórum einstaklingum á bátnum voru komnir út í sjó til að halda við bátinn og var þá ljóst að við yrðum að bregðast hratt við enda úti í sjó mjög óákjósanlegur staður til að vera á við þessar aðstæður nema maður sé fiskur.

Báturinn aftur vélarvana með björgunarmann innanborðs

„Eftir tvær misheppnaðar tilraunir til að kasta línu á milli mætti á vettvang jet-ski á okkar vegum sem gat tekið við línunni og komið henni á milli á sama tíma og hægt var að stilla bátnum þannig upp að það væri hagstæðast með tilliti til vindáttar og skerja á svæðinu. Færslan gekk vel og tókum við stímið út úr grynningunum og á sama tíma fór jet-skiið í það að ferja mennina sem þá voru komnir um borð í bátinn aftur, yfir til okkar þar sem við gátum hlúð að þeim inni í heitu stýrishúsinu.“

Jón segir þá að á sömu stundu og síðustu mennirnir voru að stíga um borð hafi festingin á bátnum sem var í togi og línan á milli losnað sem þýddi að báturinn var aftur vélarvana á reki og nú með björgunarmann innanborðs sem hafði fært sig á milli til að búa til pláss á jet-skiinu fyrir skjólstæðingana.

„Á slíkri stundu munar miklu um að allir á vettvangi séu samhæfðir og hægt sé að taka ákvörðun hratt. Við settum allt á fullt og brunuðum fullu gasi í gegnum veðrið sem á þessum tímapunkti var orðið svokallað skítaveður, með mennina í land þar sem sjúkrabílar tóku á móti þeim.“

„Á sama tíma freistaði jet-skiið þess að ná bátnum aftur í tog og gekk það eftir. Báturinn átti svo eftir að hafa viðkomu utan á fullbúnu 15 metra björgunarskipi og líka aftur utan á Sjöfn áður en hann var bundin við bryggju í Reykjavíkurhöfn.“

Þurfi vel þálfaðann mannskap í slíkar aðgerðir

Jón segir að til að svona aðgerð geti gengið upp þurfi vel þjálfaðan mannskap sem sé vanur að vinna saman og lætur hlutina ganga fumlaust. Hann segir að ekki þurfi síður góðan búnað sem hentar þeim aðstæðum sem kljást þarf við. 

„Bæði jet-skiið og Sjöfn eru tiltölulega nýjar viðbætur við tækjaflóru Ársæls og hafa ítrekað sannað gildi sitt við að koma fólki til aðstoðar en það er engum blöðum um það að fletta að það sem fór fram í gærkvöldi var sannarlega lífbjörgun.“

mbl.is