Skipar aðgerðahóp um launajafnrétti

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur skipað aðgerðahóp stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórnarráðinu.

Hópurinn er skipaður vegna skýrslu sem starfshópur um endurmat kvennastarfa skilaði af sér. Verkefni hins nýja aðgerðahóps er að leggja fram tillögur að aðgerðum til að útrýma launamun sem skýrist af kynskiptum vinnumarkaði.

Sá munur sem enn er til staðar skýrist af kynskiptum vinnumarkaði

Í nýlegri launarannsókn sem Hagstofa Íslands vann fyrir forsætisráðuneytið kemur fram að launamunur kynjanna fer minnkandi hvort sem horft er til leiðrétts eða óleiðrétts launamunar en sá munur sem enn er til staðar skýrist af kynskiptum vinnumarkaði.

Bryndís Hlöðversdóttir, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytis, er formaður hópsins. Þar eiga einnig sæti fulltrúar frá félagsmálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, ASÍ, BSRB, BHM, Kennarasambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

mbl.is