Nýjustu myndir sýna ekki ummerki um kvikuinnskot

Mikið hefur verið um jarðskjálfta suðvestur af Keili síðustu daga.
Mikið hefur verið um jarðskjálfta suðvestur af Keili síðustu daga. Mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Nýjustu gervitunglamyndir sýna ekki að um kvikuinnskot sé að ræða í tengslum við jarðskjálftahrinu sem hefur verið í gangi suðvestur af Keili undanfarna daga. Ekki er þó enn hægt að útiloka að um kvikuinnskot sé að ræða þar sem það tekur að jafnaði nokkra daga fyrir jarðris að koma fram. Þetta kom fram á fundi vísindaráðs almannavarna fyrr í dag.

Lovísa Mjöll Guðmunds­dótt­ir, nátt­úru­vár­sér­fræðing­ur hjá Veður­stofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að svokallaðar INSAR-gervitunglamyndir hafi verið notaðar til að skoða mögulegt jarðris. Þar er bylgjum varpað á svæðið og svo reiknað út hvort að ris hafi átt sér stað. Hún segir of snemmt enn að segja til um hvernig þróunin verði og hvort að jarðskjálftahrinan þarna gæti þróast með svipuðum hætti og var í febrúar þegar gos hófst í Geldingadölum.

Ósammála um ástæður skjálftahrinunnar

Hún segir að fólk hafi verið ósammála á fundi vísindaráðs um hvort væri að ræða kvikuinnskot eða skjálfta á flekamótum. „Það verður að koma í ljós á næstu dögum,“ segir hún.

Rólegt hefur verið yfir gosstöðvunum í Geldingadölum undanfarna daga og er engin sýnileg gosvirkni, þótt afgösun sjáist úr gígnum sjálfum. Spurð hvort jarðskjálftahrinan núna geti þýtt að nýtt skeið sé hafið segir Lovísa að enn sem komið er sé ekki hægt að segja til um það. „Það er of snemmt að segja til um hvernig þróast með jarðskjálftana og með Geldingadali.“

„Þetta minnir mjög á skjálftahrinuna í febrúar“

Spurð nánar út í jarðskjálftahrinuna núna segir Lovísa að þeir séu á mun afmarkaðra svæði en í febrúar þegar jarðskjálftarnir voru mjög víða á Reykjanesskaga. Þó sé ýmislegt líkt með því sem nú er að gerast og þá. „Þetta minnir mjög á skjálftahrinuna í febrúar, en það þýðir ekki að það sama sé í gangi,“ tekur Lovísa fram. Þá nefnir hún að stóru skjálftarnir núna mælist á enda kvikugangsins sem myndaðist í febrúar.

mbl.is