Nýtur sömu kjara út skipunartímabilið

Páll Matthíasson, fráfarandi forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, fráfarandi forstjóri Landspítalans.

Páll Matthíasson, fráfarandi forstjóri Landspítalans, óskaði í gær eftir fundi með Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, þar sem hann greindi henni frá ósk sinni um að stíga til hliðar úr starfi forstjóra. Þetta segir Svandís í samtali við mbl.is. Hún segir Pál hafa rökstutt ósk sína og vísað til persónulegra ástæðna og hún hafi fallist á óskina.

Samkvæmt svari frá heilbrigðisráðuneytinu við fyrirspurn mbl.is fól erindi Páls um að láta af embætti forstjóra Landspítala í sér ósk um tilflutning í starfi í stöðu sérfræðings á Landspítalanum. Með samþykki ráðherra um flutninginn mun Páll, ef launakjör sérfræðings eru lægri en núverandi launakjör, njóta þeirra kjara og hann hefur haft sem forstjóri út skipunartíma sinn, en hann á um tvö og hálft ár eftir af fimm ára skipunartíma. Í svarinu er tekið fram að auk þess að verða nýjum forstjóra innan handar muni Páll jafnframt sinna tilteknum verkefnum á vegum ráðuneytisins í tengslum við spítalann.

„Það mun standa miklu lengur en við

Ljóst er að kórónuveirufaraldurinn hefur litað mikið síðustu tvö ár af þeim átta sem Páll hefur gegnt starfi forstjóra. Spurð út í stærstu málin fyrir utan faraldurinn segir Svandís að það sem hljóti að standa upp úr sé að uppbygging nýs Landspítala við Hringbraut hafi verið sett af stað. „Það mun standa miklu lengur en við og mun skipta miklu máli fyrir umgjörð heilbrigðisþjónustu á landinu öllu,“ segir hún.

Þá segir hún uppbyggingu nýja Landspítalans einnig mikilvæga fyrir ungt fólk sem sé að mennta sig á heilbrigðissviðinu. Þannig verði til staðar innviðir sem standist samanburð við það besta í heiminum og bjóði upp á samkeppnishæft starfsumhverfi fyrir starfsfólk.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra við byggingarreit Hringbrautarverkefnisins í dag.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra við byggingarreit Hringbrautarverkefnisins í dag. Ljósmynd/Karítas

Næstu dagar í yfirferð fyrir að auglýsa stöðuna

Svandís segir að nú fari ákveðið ferli í gang þar sem ráðherraskipuð nefnd mun fara yfir umsóknarferli og texta í auglýsingu. „Við gefum okkur næstu daga í að fara yfir það,“ en þangað til skipað verður í starfið á ný mun Guðbjörg Rakel Guðjóns­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri meðferðarsviðs Land­spít­al­ans, taka tíma­bundið við stöðu for­stjóra.

Spurð út í helstu áherslur og verkefni fyrir komandi forstjóra segir Svandís að nú sé í gangi vinna við stefnumótun heilbrigðiskerfisins í heild til ársins 2040 og þar komi Landspítalinn að málum, en verkstjórn með málinu er í höndum McKinsey. Segir Svandís að þar verði meðal annars hlutverk Landspítalans skoðað til framtíðar með hliðsjón af breyttum áherslum. Segir hún fyrirséð að stefnumótunin muni meðal annars draga dám af tæknibreytingum sem gera megi ráð fyrir.

Breytt aldurssamsetning og framleiðslutengd fjármögnun

Hún segir að helsta áskorun heilbrigðiskerfisins í heild sé aftur á móti breytt aldurssamsetning þjóðarinnar með hækkandi aldri. Það þýði einnig að passa þurfi upp á mönnun í kerfinu. „Þetta er það sem við blasir og er við að eiga fyrir nýjan forstjóra,“ segir Svandís.

Fyrir rúmlega tíu dögum skrifaði ráðherra ásamt Páli og forstjóra Sjúkratrygginga undir samkomulag um fram­leiðslu­tengda fjár­mögn­un frá og með næstu áramótum, en þá er byggt á að fjármögnun verði í samræmi við veitta þjónustu. Svandís segir að um gríðarlega stórt verkefni sé að ræða sem nýr forstjóri muni vinna með. Hún tekur þó fram að undirbúningsvinna fyrir innleiðinguna hafi staðið lengi yfir og að spítalinn sé tilbúinn að taka þetta skref um áramótin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert